Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þetta gerðist á Reykjanesskaga í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson
Nú eru liðnir átta dagar frá því að skjálftahrina hófst á Reykjanesskaga. Skjálftavirknin hefur fyrst og fremst verið norðaustan við Fagradalsfjall og suðvestan við Keili. Litlar breytingar sjást á gervitunglamyndum sem vísindamenn hafa rýnt í frá því í dag. Líkur á að gos hefjist á næstu klukkustundum hafa minnkað mjög að mati Vísindaráðs almannavarna.

Í gær mældist svokallaður óróapúls um miðjan dag skammt frá fjallinu Litla-Hrút sem er mitt á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Í morgun kom fram að í nótt hefði óróinn minnkað en þó væri enn töluverð skjálftavirkni, að sögn Elísabetar Pálmadóttur náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni. Í nótt urðu nokkrir snarpir skjálftar, sá stærsti varð í morgun klukkan sex mínútur í níu. Sá skjálfti mældist 4,5 að stærð. Sá skjálfti er sá stærsti frá því á aðfaranótt þriðjudags, sá var 4,6. 

Veginum að Keili frá Reykjanesbraut var lokað í morgun sem og Vigdísarvallavegi vegna hættu á eldsumbrotum. Aflétta á banni við drónaflugi klukkan 19 í kvöld. Á sama tíma verður afleggjarinn að Keili opnaður fyrir umferð. 

Ekki miklar breytingar á yfirborði og minnkandi líkur á gosi

Í morgun áttu að berast gervihnattamyndir af Reykjanessskaganum frá Evrópsku geimvísindastofnuninni. Tafir urðu á vinnslu þeirra og vísindamenn fóru yfir þær þegar leið á daginn. Samkvæmt Sigurjóni Jónssyni, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah háskólann í Sádí-Arabíu er ekki að sjá miklar breytingar á yfirborðinu eftir óróann í gær. 

Nú á sjöunda tímanum kom tilkynning frá Vísindaráði almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Þar segir að enn séu merki um að kvikugangur sé að myndast á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Hins vegar sé það mat vísindamanna að: 

„...nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að gos sé yfirvofandi á næstu klukkustundum. Jarðskjálftamælingar sýna að virknin er enn þá mikil á svæðinu, þó dregið hafi úr henni eftir óróapúlsinn sem mældist í gær. Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en enn þá er meginvirknin á þeim slóðum sem hún hefur verið að undanförnu,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir einnig að gervihnattarmyndirnar umræddu sýni enn merki um að kvikugangur sé að myndast á svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Hreyfingin sé stöðug en að svo virðist sem hægst hafi á hreyfingunum miðað við seinustu daga. 

„GPS-mælingarnar, ásamt InSAR gögnum, sýna því að ekki varð veruleg aukning í kvikuhreyfingum samfara jarðskjálftavirkninni 3. mars. Sérfræðingar munu túlka frekar aflögunargögn til að átta sig á hversu miklar breytingar hafa átt sér stað og hvað þær þýða um framvindu mála,“ segir í tilkynningunni. 

Vísindaráð segir að nýjustu mælingar og gögn sýni að þau merki sem komu fram í gær um að veruleg hætta væri á að gos gæti hafist á næstu klukkustundum hafi dofnað mjög. Áfram sé unnið með þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið eftir, að gera verði ráð fyrir að gos geti brotist út ásamt líklegustu staðsetningu og mögulegu umfangi goss. 

„Gera verður ráð fyrir að framvinda á Reykjanesskaga muni verða kaflaskipt næstu daga og aftur geta komið skyndilegir púlsar með þéttum smáskjálftum (óróapúlsar), sambærilegir þeim sem mældust í gær. Dæmi um slíka kaflaskipta virkni, þar sem kvika kemst á hreyfingu og framkallar púlsa með tíðum smáskjálftum, eru Kröflueldar 1975-1984.  Þar einkenndist virknin af talsverðri skjálftavirkni og kvikuhreyfingum samfara púlsum með smáskjálftavirkni.  Í sumum tilfellum urðu eldgos, í öðrum ekki. Það er mat vísindaráðs að nauðsynlegt sé að taka óróapúlsa, sambærilegum þeim sem varð í gær, alvarlega og reikna með þeim möguleika að gos kunni að vera yfirvofandi þegar þeir mælast,“ segir í tilkynningunni. 

Vísindaráð mun hittast aftur á morgun til að ræða nýjustu gögn og mælingar.