Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Slakað á sóttvarnaaðgerðum í Þýskalandi

04.03.2021 - 00:50
epa09050356 German Chancellor Angela Merkel speaks to the media after a virtual meeting between Merkel and the leaders of Germany's 16 states during the coronavirus pandemic, in Berlin, Germany, 03 March 2021. The group agreed that Germany's current lockdown will extend to March 28 but that small steps toward easing certain elements of the lockdown may begin sooner. Germany is proceeding cautiously as COVID infection rates that were falling since December have in recent weeks begin to slowly climb, which the government attributes to the spread of the B117 variant.  EPA-EFE/Omer Messinger / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Getty Images Europe POOL
Angela Merkel, Þýskalandskanslari, boðar tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum frá og með mánudegi. Mjög hefur verið þrýst á stjórnina í Berlín síðustu vikur, að draga úr fjölda- og samkomutakmörkum og heimila opnun og starfsemi margs konar verslana og þjónustufyrirtækja sem verið hafa lokuð mánuðum saman. Hefur sá þrýstingur ekki síst komið frá stjórnvöldum hinna einstöku sambandsríkja, en líka frá almenningi, sem er orðinn langþreyttur á þeim þröngu skorðum sem hversdeginum er settur í farsóttinni.

Merkel lýsti því yfir á fréttamannafundi í dag, eftir fund með leiðtogum sambandsríkjanna 16, að faraldurinn væri að færast á nýtt stig sem gæfi von um betri tíð. Brýnt væri þó að sýna ekki kæruleysi heldur skynsemi á þessu stigi, og stíga lítil skref í einu.

Og það er óhætt að segja að skrefin séu lítil og varfærnisleg. Frá og með mánudegi er almenna reglan sú að heimilisfólk frá tveimur heimilum má hittast, en þó aldrei fleiri en fimm fullorðin í senn.

Á svæðum þar sem nýgengi smita er sérlega lágt má fólk frá allt að þremur heimilum hittast á einum stað, en þó aldrei fleiri en tíu fullorðin í senn.

Þá mega bóka- og blómabúðir hefja starfsemi á ný, garðyrkjustöðvar, ökuskólar og fleiri fyrirtæki, að uppfylltum ákveðnum reglum um sóttvarnir og fjöldatakmarkanir. Tilslakanirnar verða gerðar í nokkrum áföngum og eru mis miklar eftir smitstuðli á hverju svæði. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV