Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skipstjóri ákærður vegna strands línubáts við Gölt

04.03.2021 - 23:25
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Skipstjóri línubátsins Einars Guðnasonar, sem strandaði við Gölt í nóvember fyrir tveimur árum, var ákærður fyrir að fela réttindalausum skipverja stjórn bátsins. Fjórum skipverjum var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Báturinn var ein af undirstöðum útgerðarinnar Norðureyri á Suðureyri. Hann var 21 tonn og 12 metra langur, smíðaður 2015. 

Áhöfnin hafði verið á línuveiðum á Vestfjarðamiðum og var á leiðinni til hafnar þegar báturinn strandaði við Gölt í Súgandafirði. Tveir björgunarbátar ásamt fiskibát fóru á vettvang en gátu ekki athafnað sig vegna brims í fjörunni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því kölluð út sem kom skipverjum til bjargar og flaug með þá til Ísafjarðar.

Báturinn eyðilagðist algjörlega við strandið og í fjörunni. Nokkrum dögum seinna voru flest ummerki eftir hann horfin, að því fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í vikunni.

Þar segir jafnframt að við rannsókn á slysinu kom í ljós að réttindalaus skipverji hafði verið við stjórn í þrjár til fjórar klukkustundir. Hann var vanur sjómaður og hafði verið á bátnum í einn mánuð.  Hann var búinn að ræsa skipstjórann sem var að koma á stjórnpall þegar sjór skall á bátnum. Hann reyndi að keyra bátinn upp með því að setja hart til stjórnborða en þá hefði skrúfan tekið niðri og eyðilagst.

Haft er eftir skipstjóranum að siglingavaktir hefðu verið staðnar um borð. Réttindalausir tóku heimstímið og skipstjórinn útstímið. 

Í skýrslunni segir enn fremur að áhöfnin hafði verið 34 klukkustundir í ferðinni. „Gefin var út ákæra á hendur skipstjóranum fyrir að fela réttindalausum skipverja stjórn bátsins,“ segir í skýrslunni.