Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Með 71 kíló af rusli í meltingarveginum

04.03.2021 - 15:50
epa05441888 An Indian traffic policeman clears the traffic as a cow stands still on the western express highway in Mumbai, India, 26 July 2016. According to reports, four men of low-caste Dalit community, once known as untouchables in India, were beaten while trying to skin a dead cow in Una town in Gujarat, western state of India, last week. Hindus consider the cow an object of worship.  EPA/DIVYAKANT SOLANKI
 Mynd: EPA
71 kíló af plasti, nöglum og öðru rusli fannst í meltingarvegi kelfdrar kýr á Indlandi. Kýrin og ófæddur kálfur hennar drápust. Þetta þykir táknrænt fyrir ástandið sökum ruslamengunar í landinu en einnig aðbúnað flökkukúa.

Um 5 milljónir kúa ganga sjálfala um borgir Indlands og lifa á því sem að kjafti kemur á götum og í umhverfinu. Góðgerðasamtökin People For Animals Trust Faridabad komu kúnni til aðstoðar eftir að ekið var á hana í febrúar. Við skoðun hjá dýralækni kom í ljós ekki var allt með felldu hjá óbornum kálfinum. 

Því var gerð aðgerð á kúnni til að reyna að bjarga kálfinum og einnig á meltingarvegi kýrinnar. Þar kom ýmislegt í ljós. Naglar, plast, glerkúlur og fleira fundust í meltingarveginum. Að sögn Ravi Dubay forseta góðgerðasamtakanna hafði kálfurinn ekki nægt pláss í kviðarholi kýrinnar til að þroskast eðlilega og því drapst hann. Kýrin drapst einnig þremur dögum síðar. 

„Á mínum 13 ára ferli hef ég aldrei séð eins mikið af rusli koma innan úr kú. Við þurfum að beita öllu okkar afli til að ná því út,“ sagði Dubay.

Áður höfðu mest fundist hátt í 50 kíló inni í kú eftir aðgerð á vegum samtakanna. Dubay sagði einnig að kýrin væri heilög í augum Indverja, en þrátt fyrir það kærði sig enginn um líf þeirra því á hverju götuhorni mætti sjá kýr úða í sig rusli sem kæmi frá mannfólki.

Kýr eru heilagar í trúarbrögðum hindúa, en stór hluti Indverja er hindúatrúar.  Ekki má leggja kjöt af þeim sér til munns, ekki sýna þeim neins konar óvirðingu eða stugga við þeim hvar sem þær reika.  

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands hefur talað fyrir friðhelgi kúa í landinu og því hefur kúm á vergangi fjölgað undanfarið. Bændur sleppa kúm frekar lausum en að selja þær eða flytja til slátrunar. 

Engar opinberar tölur eru til um hversu margar kýr drepast árlega vegna plastmengunar, en samkvæmt úttekt India Times frá árinu 2017 drepast um 1.000 kýr árlega í borginni Lucknow í norðurhluta landsins.