Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Karólína skoraði í frumraun sinni með Bayern

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Karólína skoraði í frumraun sinni með Bayern

04.03.2021 - 08:53
Fótboltakonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjar vel með þýska stórliðinu Bayern München. Landsliðskonan skoraði nefnilega í sínum fyrsta keppnisleik með liðinu í 6-1 útisigri á Kazygurt í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í snemma í dag.

Kazygurt er frá Kasakstan sem útskýrir að hluta til af hverju leikurinn var spilaður klukkan 6:00 í morgun að íslenskum tíma. Sex klukkutímum munar á Íslandi og Kasakstan, þannig að um hádegisleik var að ræða í Kasakstan. Þetta var fyrri leikur Kazygurt og Bayern í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og Bayern stendur því afar vel að vígi eftir þennan 6-1 útisigur.

Karólína Lea kom inn á sem varamaður á 65. mínútu í stöðunni 4-0. Það tók hana ekki nema rétt um þrjár mínútur að komast á markaskoraralistann þegar hún kom Bayern í 5-0 á 68. mínútu. Frábær frumraun hjá Karólínu með nýju liði. Hún gæti svo komið við sögu í sínum fyrsta leik í þýsku deildinni þegar Bayern sækir Freiburg heim á sunnudag. Seinni leikur Bayern við Kazygurt í Meistaradeildinni er svo á miðvikudag í Þýskalandi.