Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

HSU tekur við hjúkrunarheimilinu í Vestmannaeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: eyjar.net
Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekur við rekstri hjúkrunarheimilisins Hraunbúða í Vestmannaeyjum um næstu mánaðarmót. Bæjarráð Vestmannaeyja segir fráleitt að ásaka sveitarfélög um að nota fjármagn, sem ætlað er til reksturs hjúkrunarheimila, í óskyldan rekstur.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, greindi frá því á bæjarráðsfundi í gær að á fundi með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, hefði verið tilkynnt að HSU tæki við rekstri Hraunbúða 1. apríl.

Leggja þunga áherslu á að yfirfærslan takist vel

Bæjarráð bókaði að lögð yrði þung áhersla á að yfirfærslan gangi vel fyrir sig, þjónustan verði ekki skert og hagsmunir heimilsfólks og starfsfólks verði í forgrunni við yfirfærsluna.

Auk Vestmannaeyjabæjar, voru það Sveitarfélagið Hornafjörður, Fjarðabyggð og Akureyrarbær, sem sögðu upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila. Nú hefur semsagt verið tilkynnt að Heilbrigðisstofnun Suðurlands taki við rekstri Hraunbúða í Vestmannaeyjum, í vikunni var tilkynnt að Heilbrigðisstofnun Austurlands taki við rekstri hjúkrunarheimila af Fjarðabyggð 1. apríl og þá tók Vigdísarholt við þessum rekstri af Sveitarfélaginu Hornafirði núna um mánaðamótin. Enn er óljóst hvernig rekstri hjúkrunarheimila á Akureyri verður háttað eftir að samningurinn þar við ríkið rennur út 1. maí.

Bæjarráð Vestmannaeyja ræddi einnig þær upplýsingar sem fram hafa komið, hjá formanni velferðarnefndar Alþingis, að á fundi nefndarinnar með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis og Sjúkratrygginga 1. mars, hafi komið fram að svo virðist sem fjármagn sem ætlað sé að nota í rekstur hjúkrunarheimila sé notað í óskyldan rekstur sveitarfélaga.

Engir fjármunir verið færðir til í bókhaldi 

Í bókum bæjarráðs um þetta mál segir meðal annars: „Má ætla að þau ummæli séu komin frá Sjúkratryggingum Íslands sem er vísað til í fréttinni sem er höfð eftir formanni nefndarinnar. Vegna þessa telur bæjarráð Vestmannaeyja rétt að frábiðja sér slík ummæli enda algjörlega fráleit og úr lausi lofti gripin. Engir fjármunir hafa verið færðir til í bókhaldi vegna þessa og allt það fjármagn sem hefur komið frá íslenska ríkinu hefur farið til reksturs Hraunbúða og svo verulega meira til eins og hefur ítrekað komið fram í fréttum. Hérna er einfaldlega verið að fara með rangt mál og fela vanmátt íslenska ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands til þess að takast á við það verkefni að taka yfir rekstur hjúkrunarheimilanna eins og þeim ber skylda til.“