Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gallup: Borgarstjórnarmeirihlutinn eykur fylgi sitt

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Borgarstjórnarmeirihlutinn eykur fylgi sitt milli kannana og myndi bæta við sig borgarfulltrúa, en núverandi minnihluti missa tvo ef kosið yrði nú. Þetta er meginniðurstaða skoðanakönnunar sem Gallup gerði og birt er í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt könnuninni nýtur Samfylkingin nú mests fylgis meðal borgarbúa, því 26,4 prósent þeirra sem afstöðu taka segjast myndu kjósa hana ef kosið yrði í dag. Litlu færri, 25,2 prósent, myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Píratar eru í þriðja sæti með 10,5 prósenta fylgi en Viðreisn og Vinstri hreyfingin grænt framboð koma fast á hæla þeirra með 8.9 prósenta fylgi hvor um sig.

VG tvöfaldar fylgið og bætir við sig manni

Allir flokkar meirhlutans hafa því bætt við sig fylgi frá kosningunum 2018. Munurinn er innan skekkjumarka hjá Samfylkingu og Viðreisn en fylgi Pírata eykst um nær þrjú prósentustig og Vinstri græn hafa nær tvöfaldað fylgi sitt frá kosningunum, þegar flokkurinn fékk einungis 4,6 prósent atkvæða og einn fulltrúa.

Fylgisaukning hjá Sósíalistum og Framsókn

Sósíalistaflokkurinn bætir verulega við fylgi sitt miðað við þessa könnun, fer úr 3,8 prósentum í 6,6, og Framsókn kæmi inn manni ef kosið yrði nú. Samkvæmt könnuninni styðja 4,3 prósent kjósenda Framsóknarflokkinn nú en aðeins 3,2 prósent kusu flokkinn 2018. Miðflokkurinn myndi tapa hálfu öðru prósentustigi og Flokkur fólksins missa sinn fulltrúa í Borgarstjórn ef þetta yrðu niðurstöður kosninga og Sjálfstæðisflokkurinn tapa einum fulltrúa.

Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur nú tólf borgarfulltrúa af 23 en fengi þrettán samkvæmt könnuninni. Núverandi minnihlutaflokkar færu úr ellefu borgarfulltrúum í níu en Framsóknarflokkur næði aftur inn fulltrúa. 

Gallup gerði könnunina fyrir Samfylkinguna í tveimur hlutum, frá 6. nóvember til 12. desember 2020 og aftur 28. janúar til 14. febrúar á þessu ári.  Könnunin var netkönnun og af þeim 1.054 sem svöruðu tóku 62 prósent afstöðu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV