Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Enginn gulur núna“

Mynd: RÚV / RÚV

„Enginn gulur núna“

04.03.2021 - 12:43

Höfundar

Egill Jónasson listamaður semur tónlist, býr til vídeóverk og málar myndir. Í verkum hans bregður meðal annars fyrir puntsvínum, Bónuspoka og Taylor Swift. 

Egill útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2012 og lauk BA-námi á myndlistarbraut í Listaháskóla Íslands árið 2016. Hann býr og starfar á Akureyri. Nýverið sýndi Egill vídeóverkið Puntsvín í sýningarrýminu Kaktus á Akureyri, sem unnið var í anda Flash-forritsins og innihélt hljóðverk sem unnið var úr umhverfishljóðum.

Enginn gulur núna

Málverk Egils einkennast af litadýrð og húmor, þó með dökkum undirtón. „Ég er mjög hrifinn af öllum naívisma og barnadóti, cobra og svoleiðis; þessari einlægni. En svo hugsa ég þegar ég er að teikna að í staðinn fyrir að reyna að herma eftir börnum þá teikna ég eins og er náttúrulegt fyrir mig. Það verður einhver svona teiknimyndastíll,“ segir hann. Að eigin sögn hefur hann gegnum tíðina reynt að hemja litagleðina, með takmörkuðum árangri. „Litir eru svo fallegir og ég á svo marga liti og langar að nota þá alla. Ég dáist að listamönnum sem eru kannski bara með hvítt og smá ljósgrátt í því. Ég byrja oft á: Ókei, ég ætla að sleppa gulum, enginn gulur núna, en svo kemur gulur,“ segir hann og hlær.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er mikil litagleði í myndum Egils.

Með hauspoka á opnanir

Egill gerir meðal annars verk undir nafninu Drengurinn fengurinn, sem er eins konar ljósmyndasyrpa með gjörningaívafi. „Ég byrjaði með Drenginn fenginn held ég á þriðja ári í Listaháskólanum. Þetta var áskorun fyrir sjálfan mig, því ég var svo agalega feiminn: að vera með grímuhauspoka, fara á opnanir og biðja listamanninn um að taka mynd með honum. Ég með grímuna með listamanninn við hliðina á mér og svo setti ég það á Instagram og þótti það hræðilega erfitt. Þetta var svona félagsfælni-efli eitthvað.“ Konseptið hefur síðan færst yfir á tónlistarsköpun Egils en hann fæst bæði við hljóðverk og tónsmíðar. 

Bara frekar glaður

Nýverið endurgerði Egill seríu málverka, sem er nokkurra ára gömul. Hann bætti nýju lagi ofan á verkin sem endurspegla að vissu leyti breytingar sem orðið hafa á listsköpun hans og lífi hans almennt. „Flest þessara málverka eru eitthvað sem ég vann fyrir svona fjórum árum og var með í geymslu. Svo núna, í staðinn fyrir að kaupa nýja striga og fylla meira pláss, þá ákvað ég að bæta bara ofan á þær. Ég var hvort eð er búinn að fá ógeð á þeim og þær misstu mátt sinn. Þegar ég vann myndirnar upphaflega var ég agalega þunglyndur og reykti meira að segja, þannig að þar var ég að vinna úr alls konar málum. Svo finnst mér einmitt gaman að bæta svona við núna, þegar ég held að ég sé bara frekar glaður. Já, ég bjóst ekki við því. “

Nánar má kynna sér verk Egils hér.