Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Einn greindist með suðurafrískt afbrigði COVID-19

04.03.2021 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Frá því að krafa um neikvætt PCR próf við komuna til landsins hafa 1.600 slíkum vottorðum verið framvísað. Af þeim hafa 8 verið með virkt smit sem hafa greinst við sýnatöku. Fyrr í vikunni greindist svokallað suður afríska afbrigði veirunnar. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna. Staða faraldursins innanlands er áfram góð, Ekkert smit greindist í gær, hvorki innanlands né við landamærin. 

„Þetta segir okkur að neikvætt PCR próf, eða vottorð um það er ekki fullkomið til að halda veirunni frá þó að það sé árangursríkt að krefjast þessa vottorðs vafalaust. Það sem af er hafa 90 einstaklingar greinst með breska afbrigðið svokallaða, þar af eru 20 innanlandssmit eða fjölskyldumeðlimir sem tengjast nánum böndum þessum sem eru að greinast á landamærum, en við höfum ekki séð nánari dreifingu inn í landið. Einn hefur greinst með suður afríska afbrigðið svokallaða, það var fyrir 4 dögum síðan,“ segir Þórólfur.

Enginn hefur greinst með brasilíska afbrigði veirunnar. Um 7.000 manns voru bólusettir í vikunni og til stendur að bólusetja annan eins fjölda í næstu viku. Í gær kláraðist bóluefnið áður en náðist að klára bólusetningu. Alma og Þórólfur töluðu bæði um mikilvægi þess að missa ekki dampinn í sóttvörnum þrátt fyrir yfirvofandi eldgos á Reykjanesskaga. 

„Við eigum góða vísindamenn og við eigum góða viðbragðsaðila. Við erum mjög upplýst þjóð, það vinnur með okkur. Við þurfum að halda áfram að sýna samstöðu og yfirvegun í því sem nú gengur yfir,“ segir Alma.

Og Þórólfur bætti við.

„Ég held að við getum líka tekið Pollýönnu á þetta líka, og sagt að það er ljós í myrkrinu að staðan á faraldrinum er svona góð hér þegar við erum að takast á við þessar jarðhræringar. Það væri miklu verra ef við værum með mikinn faraldur í gangi og fengjum þetta svo í fangið. Svo við getum glaðst yfir sumum hlutum,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur segir að það sé ekki ástæða eða tilefni til að aflétta fyrir 17. mars, en núgildandi reglur gilda þangað til.