Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biðst afsökunar á að hafa gleymt Hauki Hilmarssyni

04.03.2021 - 22:22
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd  - Úr einkasafni
Forsætisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem beðist er afsökunar á því að það gleymdist að nefna í nýrri skýrslu þjóðaröryggisráðs að Haukur Hilmarsson hefði barist með hersveitum Kúrda gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamska ríkið. „Þessi leiðu mistök eru hörmuð og beðist er afsökunar á þeim sárindum sem þau hafa valdið. “

Í skýrslunni kemur fram að Íslendingar, einir Norðurlandaþjóða, hafi ekki tekið beinan þátt í aðgerðum bandamanna „gegn ISIS-hryðjuverkasamtökunum í Írak og Sýrlandi. Ekki er vitað til þess að einstaklingar búsettir hér á landi hafi haldið til Mið-Austurlanda í því skyni.“   

Ráðuneytið segir að þessi mistök verði nú leiðrétt og skýrslan prentuð upp að nýju. Fréttablaðið greindi fyrst frá því að ráðuneytið hefði gleymt að minnast á Hauk.

Haukur Hilmarsson er talinn hafa farist í loftárás Tyrkja þann 24. febrúar árið 2018. Heimildum ber ekki öllum saman um hvað gerðist eða hvenær. „Við vitum ekki meira. Þau hleyptu aldrei neinum mannréttindasamtökum á svæðið til að leita að líkum,“ sagði Eva Hauksdóttir í viðtalsþættinum Okkar á milli sem sýndur var á RÚV fyrr á þessu ári. 

Haukur er talinn hafa farið til Rojava til að berjast með YPG, frelsissveit Kúrda. Hann hafði verið við sjálfboðsstörf í Grikklandi árin 2015 og 2016. Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik að þar hefði hann aðstoðað að taka móti skelfingu lostnu fólki sem flýði stríð í heimalandi sínu.

Eftir herþjálfun hélt hann til Raqqa, sem þá var eitt höfuðvígi ISIS en eftir langvinna og blóðuga bardaga hrökkluðust samtökin loks þaðan. Þar barðist Haukur mánuðum saman. Var þá sjónum beint að Afrin-héraði og Haukur reyndi með frelsissveitum Kúrda að verja Afrín falli eftir að sveitir hliðhollar Tyrkjum umkringdu borgina. Frá þeim bardaga hefur ekkert spurst til Hauks.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók mál Hauks upp á fundi sínum með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í mars 2018. Þar óskaði hún eftir því að íslenskir embættismenn gætu leitað til kollega sinna í Þýskalandi um aðstoð.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV