Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bagalegt að dreifingaráætlun skorti eftir mars

Mynd: Almannavarnir / Ljósmynd
Sóttvarnalæknir segir að ekki sé rétti tíminn til að létta á sóttvarnaaðgerðum á meðan jörð skelfur á Reykjanesskaga, þrátt fyrir að einungis eitt smit hafi greinst undanfarna tólf daga. Hann segir bagalegt að áætlun fyrir dreifingu bóluefna eftir mars liggi ekki fyrir. Ljóst sé að bóluefnasamstarf Evrópuríkjanna hafi þróast með öðrum hætti en vonir stóðu til. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í morgun að einn hefði greinst með suðurafríska afbrigðið af kórónuveirunni við landamærin. Níutíu smit af breska stofninum hafa greinst hér á landi, þar af 20 innanlands. Hann sagði að þeir sem greindust með þann stofn við landamærin kæmu víða að, bæði frá Bretlandi og mörgum löndum innan Evrópu.

Sá sem greindist með suðurafríska afbrigðið, hvaðan kom hann? „Viðkomandi var að koma frá Afríku.“

Þórólfur segist hafa viljað sjá bóluefnasamstarf Evrópuþjóðanna, sem Ísland á aðild að, þróast á annan hátt. Það hafi tekið langan tíma fyrir bóluefnaframleiðendur að fá markaðsleyfi. „Og í öðru lagi hefði ég viljað sjá meiri dreifingu, það er náttúrulega háð framleiðslugetu framleiðendanna, auðvitað eru skýringar á þessu. Ég hefði viljað sjá þetta gerast hraðar.“

Ísland fær á næstunni 34.000 viðbótarskammta af bóluefni frá Pfizer. Óljóst er með afhendingu annarra bóluefna eftir mars og dreifingaráætlanir eftir það liggja ekki fyrir.  Spurður hvort það sé ásættanlegt svarar Þórólfur: „Það er bagalegt, ég myndi gjarnan vilja fá að vita það. En þannig  er staðan.“

Ekkert smit greindist innanlands í gær. Nú eru níu virk smit á landinu, sjö á höfuðborgarsvæðinu og tvö á Norðurlandi eystra. Núverandi sóttvarnareglugerð gildir til 17. mars. Þórólfur segir að afléttingar séu ekki tímabærar þrátt fyrir góða stöðu. „Ég held núna, í ljósi þeirra hræringa sem eru í gangi og hugsanlegrar upplausnar sem gæti komið ef eitthvað gerist, þá held ég að það væri mjög óvarlegt að slaka meira á.“