Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Allt að ársbið eftir tíma hjá geðlækni

04.03.2021 - 16:05
Úr umfjöllun Kveiks um sjálfsvíg á geðdeild
 Mynd: RUV
Það hefur sjaldan eða aldrei verið jafn erfitt að fá tíma hjá geðlækni og nú. Þetta segir formaður Geðlæknafélagsins. Sjálfstætt starfandi læknar taka sjaldnast nýja sjúklinga og biðtími er allt að ár. Dæmi eru um að fólk hafi gefist upp á biðinni og leitað til útlanda eftir læknisþjónustu.

Viðtölum á stofum hjá sjálfstætt starfandi geðlæknum hefur fækkað um tæpan fjórðung  síðasta áratuginn. Þau voru um 39 þúsund árið 2009 en árið 2019 voru þau 30 þúsund. Ástæðuna má meðal annars rekja til þess að lítil endurnýjun er í stéttinni, margir geðlæknar taka ekki nýja sjúklinga þar sem þeir eru fullbókaðir.

Gefast upp á biðinni og fara til útlanda 

Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, segir að staðan sé ekki góð.

„Ég myndi segja að biðtíminn sé að lágmarki 6-12 mánuðir. Og stundum er biðtíminn það langur að fólk í rauninni þarf að leita eitthvað annað því það fær ekki þjónustu nægilega skjótt. Ef fólki versnar mikið leitar fólk á geðdeild Landspítalans á bráðamóttökuna þar. Og í einstaka tilfellum þá hefur maður heyrt af fólki sem er í aðstöðu til þess leiti til útlanda hreinlega,“ segir hann.

Ekki bara hægt að stoppa í göt hér og þar

Ekki eru samningar milli sjálfstætt starfandi geðlækna og sjúkratrygginga og Karl segir það valda óvissu um framhaldið. Hann bendir þó á að jákvæðar breytingar hafi orðið á síðustu árum, meðal annars hafi geðheilsuteymi verið efld. 

„Málið er að það þarf bara meira til. Eftirsóknin eftir þjónustu er bara það mikil að geðdeildirnar, geðheilsuteymin og líka læknar og geðlæknar á stofu, þetta þarf allt að vera í lagi til að kerfið virki. Ég held það sé bara ekki hægt að stoppa í göt bara hér og þar, það þarf heildaryfirsýn,“ segir Karl.