Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Voru að vinna í 70 metra hæð í skjálftanum 1968

03.03.2021 - 17:00
Mynd: Kiljan / RÚV
Í jarðskjálftahrinunni, sem nú gengur yfir Reykjanesskaga, hafa jarðeðlis- og jarðskjálftafræðingar oft minnst á skjálftana snörpu árin 1929 og 1968, sem urðu nálægt Brennisteinsfjöllum austan Kleifarvatns.

Vara við skjálftum af stærðinni 6 til 6,5

Þeir voru á milli 6 og 6,5 að stærð og vísindamenn hafa varað við að skjálfti að þessari stærð geti orðið í þessari hrinu eða í náinni framtíð. Það er því ekki úr vegi að rifja upp samtímafrásagnir af þessum skjálftum. 1929 skjálftinn varð þriðjudaginn 23. júlí og fannst víða um sunnan- og vestanvert landið.

Fólk þusti út á götur

Í  Morgunblaðinu daginn eftir, 24. júlí 1929, segir:  „Stundarfjórðungi fyrir klukkan 6 í gær kom hjer í Reykjavík svo harður jarðskjálftakippur, að menn muna hjer ekki annan eins. Hús hristust svo að brakaði í þeim og fjölda fólks var nóg boðið, svo það þusti út á göturnar, sumpart til að bjarga sjer, ef húsin skyldu hrynja, sumpart til þess að verða sjónarvottar að atburðum þeim, er fyrir kæmi í grenndinni. Talið er, að kippurinn hafi staðið í 35-45 sekúndur. Er það langur jarðskjálftakippur".   

Mátti ekki vera stærri

Ennfremur segir: „Almennt mun það vera álit manna, að jarðskjálftakippur þessi hafi ekki mátt verða mikið meiri til þess, að hjer hefðu hrunið og yfirskollið hið stórkostlegasta og hörmulegasta slys, sem fyrir bæ þennan getur komið". 

Bækur féllu úr hillum

Jarðskjálftinn 1968 varð fimmtudaginn 5. desember. Dagblöðin í Reykjavík fjölluðu ítarlega um skjálftann daginn eftir. Fréttin á forsíðu Tímans hljómaði svo: 

„Klukkan 9:44 í morgun kom snarpur jarðskjálftakippur, sem fannst greinilega á svæðinu frá Búðardal allt austur að Kirkjubæjarklaustri. Kippurinn var óvenju langur og sömuleiðis harður, eða sá harðasti, sem mælst hefur í Reykjavík frá 1929.  Rafmagn fór af í Hafnarfirði, bækur féllu úr hillum og hlutir færðust úr stað".

Stökk út úr strætisvagninum

„Austur í sveitum hélt fólk, sem var við vinnu úti við, að það væri að fá aðsvif, og strætisvagnstjóri í Reykjavík, sem sat við blaðalestur í vagni sínum á torginu stökk upp og út úr vagninum, þar sem hann hélt að svona harkalega hefði verið ekið aftan á vagninn, er hann fór að hristast og skjálfa. Eftir fyrsta og snarpasta kippinn komu svo hvorki meira né minna en um 100 kippir, en þeir voru flestir mjög vægir". 

Í steypuvinnu í 70 m hæð

Í Þjóðviljanum 6. desember 1968 er rætt við fjóra verkamenn sem voru við vinnu í 70 metra hæð í Hallgrímskirkjuturni þegar skjálftinn reið yfir. Heyra má frásögnina af því og fleiru í spilaranum hér að ofan. 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV