Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segist ekki hafa brotið trúnað

Mynd með færslu
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.  Mynd: RÚV
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segist ekki hafa brotið trúnað þegar hún tjáði sig í fréttum RÚV um atriði sem komu fram á lokuðum fundi nefndarinnar. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert alvarlegar athugasemdir við málflutning hennar og telur hana hafa brotið trúnað með ummælum sínum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að formaður velferðarnefndar hafi tjáði sig um viðkvæm málefni sem rædd voru á lokuðum nefndarfundi og varða talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara og hjúkrunarheimili sem rekin eru á vegum sveitarfélaga.

„Í þingskaparlögum er afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Heilbrigðisráðuneytið verður að geta treyst því að samskipti við velferðarnefnd byggi á heilindum, virðingu fyrir þeim málum sem þar eru til umfjöllunar og að trúnaðar sé gætt líkt og áskilið er í lögum,“ segir í tikynningu ráðuneytisins. „Samningaviðræður standa yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og fyrrnefndra aðila og bendir ráðuneytið á að ógætileg ummæli í fjölmiðlum um mál sem rædd eru í trúnaði á lokuðum fundi velferðarnefndar geti spillt fyrir þeim viðræðum.“

Alvanalegt að greint sé frá umræðuefnum nefndarfunda

Helga Vala Helgadóttir segist ekki hafa brotið trúnað. Hún hafi ekki vitnað orðrétt í neinn af gestum fundarins, aðeins greint efnislega frá atriðum sem þar voru á dagskrá. Það sé alvanalegt að greint sé frá umræðuefnum nefndarfunda Alþingis. Annað af meginhlutverkum Alþingis sé að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Eðli málsins samkvæmt verði að vera hægt að ræða það sem fram fari við það eftirlit. „Ef við mættum ekki fjalla um þau mál sem við erum með til umfjöllunar, hvernig eigum við þá að geta hagað eftirlitinu,“ segir hún.