Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðuneyti óskar svara Landspítala um leghálsskimun

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir því að Landspítali staðfesti vilja sinn til að annast greiningu leghálssýna og geri grein fyrir því til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til þannig að starfsemin uppfylli viðmið um gæði, öryggi og skilvirkni.

Jón Gunnlaugur Jónasson, yfirlæknir meinafræðideildar, sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að meinafræðideild Landspítalans gæti tekið að sér rannsókn á leghálssýnum en ekki hafi verið óskað eftir því. 

Jón kvaðst telja að ef óskað yrði eftir því  gæti deildin gert þær ráðstafanir sem þyrfti, að ráða sérhæft starfsfólk og kaupa eða leigja tækjabúnað af Krabbameinsfélaginu og húsnæðið. 

Í afdráttarlausu svari hans til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 12. ágúst síðastliðinn sagði að ekki yrði metinn kostnaður við greiningu leghálssýna þar sem skortur væri á sérhæfðu starfsfólki og tækjabúnaði til starfans.

Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Það sé því rangt að ekki hafi verið leitað til Landspítalans um að taka að sér rannsókn á leghálssýnum. 

Í svarinu segir að Heilsugæslan hafi sent yfirlækni meinafræðideildar spítalans erindi 22. júlí síðastliðinn og yfirlækni sýklafræðideildar daginn eftir. 

Í svari Landspítala til ráðuneytisins kemur fram að kröfur um öryggi og gæði hafi verið hafðar að leiðarljósi varðandi fyrirkomulag rannsókna. 

Með innleiðingu HPV skimunar og í ljósi fækkunar frumurannsókna niður í sjö til átta þúsund á ári sé erfitt eða ómögulegt að tryggja öryggi og gæði frumurannsókna hér á landi. 

Þótt engin skimunaraðferð hafi 100% næmi sé næmi HPV-mælinga um 95%. Innleiðing HPV-mælingar hér á landi er í samræmi við samhljóma álit skimunarráðs, landlæknis og fagráðs um leghálsskimanir frá því í október.

Þar sagði að eindregið væri mælt með því að HPV frumuskimun verði tekin upp hér á landi eigi síðar en 1. janúar 2021.“