
Páfi ætlar til Íraks þrátt fyrir ólgu
Páfi verður fjóra daga í Írak og ætlar að sækja heim kristna söfnuði í landinu. Hann ætlar einnig að hitta veraldlega leiðtoga og trúarlega, þar á meðal Ali Sistani erkiklerk, æðsta leiðtoga síta í Írak, sem búsettur er í Najaf.
Sistani, sem er níræður, nýtur mikillar virðingar í heimalandi sínu. Hann sést sjaldan opinberlega og tekur sjaldan á móti gestum.
Ólga hefur farið vaxandi í Írak eftir að flugskeytaárásir á bækistöðvar fjölþjóðaliðsins í landinu hófust á ný í síðasta mánuði. Að minnsta kosti einn lét lífið þegar flugskeytum var skotið á herflugvöll í Írak í morgun, þar sem fjölþjóðalið undir forystu Bandaríkjamanna hefur aðstöðu.
Árásin á Ain al-Assad flugvöllinn var gerð laust fyrir klukkan hálf átta að staðartíma. Haft er eftir fulltrúum Írakshers að skeytin hafi verið af gerðinni Arash, smíðuð í Íran.
Tugir árása voru gerðar á bækistöðvar fjölþjóðaliðsins í Írak á síðasta ári og hafa stjórnvöld í Bagdad og Bandaríkjunum kennt um vopnuðum sveitum sem hliðhollar eru Íran.
Hlé varð á í október, en þetta er fjórða árásin á bækistöðvar fjölþjóðaliðsins í Írak á undanförnum þremur vikum. Bandaríkjaher svaraði með loftárás á vígi samtakanna Kataeb Hezbollah á landamærum Íraks og Sýrlands í síðustu viku, en samtökin njóta stuðnings frá Íran.