Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neyðast til að fórna EM vegna aðstæðna

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Neyðast til að fórna EM vegna aðstæðna

03.03.2021 - 10:03
Engir Íslendingar verða meðal keppenda á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum innanhúss um helgina í Torun í Póllandi. Tveir Íslendingar voru þó komnir með keppnisrétt. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson áttu bæði að keppa á EM.

Bæði fengu þau keppnisrétt í 60 m hlaupi, en hvorugt hafði þó náð lágmarki inn á mótið. Frjálsíþróttasamband Íslands sótti þó um undanþágu þar sem bæði voru nálægt lágmörkunum og var sú undanþága veitt. Þegar á hólminn var komið var þó ákveðið að besta niðurstaðan væri sú að taka ekki boðinu inn á EM.

„Við vorum á leiðinni með þau á EM en niðurstaðan varð sú að þau færu ekki. Það var sameiginleg niðurstaða þeirra og okkar í Frjálsíþróttasambandinu. Það er margt sem spilar inn í. Bæði var ferðlagið sem við höfðum teiknað upp erfitt og óspennandi og svo hefði þátttakan á EM þýtt að þau hefðu misst allavega að fyrri degi Meistaramóts Íslands helgina á eftir,“ sagði Guðmundur Karlsson framkvæmdastjóri FRÍ við RÚV í dag.

Mynd með færslu
 Mynd: FRÍ
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.

„Þau hefðu auðvitað þurft að vera í fimm daga sóttkví við komuna aftur til Íslands og þar með misst af fyrri degi Meistaramóts Íslands. Svo hefði kannski ekki verið gott að mæta til keppni seinni daginn ekki búin að æfa neitt í fimm daga. Þó EM sé auðvitað mun stærra mót þá var ákveðið að fórna því. 60 m hlaup er ekki aðalgrein hvorki Guðbjargar né Kolbeins. Þannig lendingin var sú að besta niðurstaðan væri sú að fara ekki á EM,“ sagði Guðmundur.

Kolbeinn Höður og Guðbjörg Jóna eru sterkust í 100 og 200 m hlaupum. Ekki er keppt í 100 m hlaupi innanhúss og ekki er keppt í 200 m hlaupi á EM innanhúss. Þau verða því væntanlega bæði í eldlínunni á Meistaramóti Íslands í Laugardalshöll 13. - 14. mars. Þrátt fyrir fjarveru þeirra á EM í Póllandi um helgina mun RÚV þó sýna beint frá EM. Sýnt verður frá mótinu á föstudag, laugardag og á sunnudag en nánar má sjá um útsendingar frá EM hér.