Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loftslagsáætlun ýtir undir breyttar ferðavenjur fólks

Mynd: RÚV / RÚV
Líf Magneudóttir formaður Umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar segir að vinda þurfi ofan af hörmulegri þróun í loftslagsmálum og sýna þurfi með aðgerðum að rými séu örugg fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í borginni.

Líf var gestur morgunvaktar Rásar eitt í morgun þar sem hún sagði að senda þyrfti út þau skilaboð að eldsneytisknúin farartæki valdi hvað mesti losun gróðurhúsalofttegunda. 

Borgarfulltrúar meirihlutans auk tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokks og fulltrúa Sósíalistaflokksins samþykktu aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum 2021 til 2025 í gær. 

Með því að efla almenningssamgöngur, borgarlínu þar á meðal, segir Líf að  send séu sterk skilaboð þess efnis fólk þurfi að breyta ferðavenjum sínum. Það sé ekki nóg að skipta yfir í umhverfisvænan bíl og halda uppteknum hætti. 

„Það er algerlega óboðlegt vegna þess að bílar menga. punktur. Vistvænir bílar menga minna, rafbílar, tvinnbílar, metanbílar, menga minna en engu að síður þá menga þeir.“ 

Fækka þurfi bílum á götunni um leið og þeir séu gerðir umhverfisvænni. Jafnframt á að fækka bílastæðum í borginni um tvö prósent á ári. Það sé aðgerð sem Líf þvertekur fyrir að snúist um hatur á einkabílnum heldur um það að gefa fólki frelsi til að velja eitthvað aðra leið til að komast milli staða. 

„Það fara 245 þúsund fermetrar undir bílastæði, almenningsstæði í Reykjavík,“ bílastæði í borginni séu um 30 þúsund. Líf segir sér hafa reiknast til að það væri á borð við sex Kringlur eða fjórar Smáralindir.  

Það borgarland verði þá endurheimt undir eitthvað grænna segir Líf. Jafnframt sé verið að gefa borgarbúum tækifæri til að átta sig á að hægt sé að sleppa bílnum og prófa nýja farskjóta á borð við rafskutlur og rafknúin reiðhjól. 

Þrír borg­ar­full­trúar voru í stýri­hópi um end­ur­skoðun lofts­lags­stefn­unn­ar, ásamt Líf sátu þar þær Sig­ur­borg Ósk Har­alds­dóttir úr Pírötum og Vig­dís Hauks­dóttir úr Mið­flokkn­um. 

Reykjavíkurborg hefur keypt verslunarkjarna í úthverfum svo blása megi í þá lífi að nýju. Góð vinna segir Líf vera í gangi um hverfaskipulag með aðkomu íbúa sem vilji fá kjarna innan hverfanna. Krafan sé að búa til sjálfbær hverfi, sem náist með inngripi borgaryfirvalda.

Líf segir engan tíma mega missa í loftslagsmálum. Viðfangsefni Reykjavíkur sé þó lítið í samanburði við aðrar borgir, hér sé mikið af grænni orku. En ætli ríkið að standa við Parísarsamkomulagið þarf að grípa til aðgerða svo kolefnishlutleysi náist 2040.