Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kristín: Hröð gliðnun í tengslum við kvikugang

Mynd: RUV / RUV
Viku eftir að jörð skalf á öllu suðvesturhorni landsins með tveimur skjálftum upp á 5,7 og 5,1 mældist óróapúls suður af Keili við Litla Hrút klukkan 14:20 í dag. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa sem Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir til marks um mjög hraða gliðnun í tengslum við kvikugang. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir öruggt að kvika sé á ferli en öllu erfiðara sé að spá hvað hún muni gera.

Almannavarnir blésu til blaðamannafundar í dag eftir að óróans varð vart á mælum Veðurstofunnar.

Sviðsmyndin úr kórónuveirufaraldrinum blasti við sjónvarpsáhorfendum en nýtt þríeyki kynnt til sögunnar. Víðir Reynisson hélt sínu hlutverki en Þórólfi og Ölmu hafði verið skipt út fyrir Kristínu og Freystein Sigmundsson, jarðeðlisfræðing.

Á fundinum kom fram að ef það færi að gjósa myndi það ekki ógna neinni byggð, að hraun frá slíku gosi myndi ekki ógna neinum mannvirkjum í bráð og það sem er kannski mikilvægast; fólk væri ekki í hættu.   Þetta yrði með öðrum orðum ekki hamfaragos.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við Sigríði Hagalín Björnsdóttur eftir fundinn að atburðarás síðustu daga hefði komið henni á óvart. Og í kvöldfréttum Sjónvarps sagði hún ekki rétt að tala um gosóróa heldur væri þetta svokallaður óróapúls sem hefði mælst við Litla Hrút.

Púlsinn væri til marks um hraða gliðnun í tengslum við kvikuganginn sem er að skríða í áttina að Keili og að kvika væri að færast nær yfirborðinu. „Þetta þýðir að líkur aukast frekar á eldgosi. Það er samt ekki öruggt og það er ekki vitað að ef þetta myndi gerast hvenær það myndi gerast.  Þetta gæti tekið einhverja daga eða þess vegna vikur.“ 

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, var gestur Kastljóss í kvöld og sagði óróann mega rekja til þess að kvikugangurinn hefði hlaupið eitthvað út undan sér.  Hann hefði annað hvort verið að lengjast eða komast nær yfirborðinu. Þetta væri kvika á ferli en erfitt væri að spá nákvæmlega fyrir um hvað kvikan myndi gera. Rúmmál þessa kvikugangs væri á reiki en giskað hefði verið á 10 til 20 milljón rúmmetrar af kviku hefðu troðið sér inn í kvikuganginn.

Gos á Reykjanesskaga eru yfirleitt lítil. Þau standa yfirleitt í viku eða svo og algengt hraunmagn er yfirleitt um 0,1 rúmkílómetri. Til samanburðar má nefna að rúmmál hraunsins í Holuhrauni er um 1,4 rúmkílómetrar sem vísindamenn telja reyndar eitt stærsta gosið á Íslandi síðan í Skaftáreldum.

Um sjö leytið í kvöld varð skjálfti af stærðinni 3,3 sem fannst nokkuð greinilega og Kristín sagði í kvöldfréttum að lítið hefði dregið úr virkninni. Mjög stórir skjálftar hefðu riðið yfir síðustu vikur, snarpir skjálftar síðasta sólarhringinn og svo þessi órói eftir hádegi. 

Von væri á nýjum gervihnattarmyndum í kvöld og Kristín reiknaði með að þær gætu varpað frekara ljósi á stöðu mála um hádegisbil á morgun.

Hægt er að horfa á Kastljósið í heild hér.

Mynd: Skjáskot / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV