Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Innviðir HS Orku á heppilegum stað komi til goss

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hjá HS Orku í Svartsengi er fólk í viðbragsstöðu vegna skjálftanna eins og víðar og er í nánu samstarfi við Almannavarnir, Landsnet og HS veitur. Tómas Más Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir að ein sviðsmyndin sé sú að skjálftahrinan lognist út af, önnur að það komi stærri skjálftar, annað hvort í Brennisteinsfjöllum eða Fagradalsfjalli og sú þriðja að hraun komi upp úr jörðu. 

„Eins og staðan er núna þá er það á ansi heppilegum stað fyrir alla innviði, eins og þetta lítur út, þar sem berggangurinn er staðsettur, og þar sem jarðvísindamenn eru að meta það. En vissulega erum við viðbúin með okkar viðbragsáætlanir með þessum mismunandi sviðsmyndum,“ sagði Tómas Már í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.  

Hvað ef þið allt í einu þið hættið að fá vatn út af einhverju sem gerist undir yfirborði jarðar og allt í einu verða lindirnar sem þið eruð með, borholurnar verða þurrar? „Við gerum ekki ráð fyrir því að það slökkni á því einn tveir og þrír, við verðum með einhvern fyrirvara að því. Það eru náttúrulega miklir skjálftar og mælingar á svæðinu. Svo er verið að mæla kvikuna og hvernig hún hreyfir sig ef það er kvika. Fyrst og fremst ef að kalda vatnið færi þá myndum við alltaf hafa að því einhvern aðdraganda og getum þá brugðist við á einhvern hátt. Farið í nýjar lindir, nýjar holur og lagt lagnir á yfirborði, bráðabirgða,“ segir hann. 

Mynd með færslu
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.  Mynd: Hulda G. Geirsdóttir - RÚV

HS orka er með virkjanir á Reykjanesi og í Svartsengi og segir Tómas Már að virkjunin í Svartsengi sé á rúmlega 700 ára gömlu hrauni og því komi það starfsfólki ekki á óvart að þar komi jarðskjálftar. Þau segja stundum að þau fagni skjálftunum því þá komi meiri varmi inn í kerfið og það sést að jarðhitasvæðið bregst við á jákvæðan hátt.