Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gosórói á Reykjanesskaga — þetta vitum við núna

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Litlir skjálftar fóru að mælast suður af Keili við Litla Hrút klukkan 14:20. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að eldgos sé hafið. Björgunarsveitir á Suðurnesjum eru í viðbragðsstöðu, viðbúnaðarstig vegna flugumferðar hefur verið hækkað og almannavarnir hafa boðað til blaðamannafundar klukkan 16 þar sem farið verður yfir stöðu mála.

Á fundinum verða þau Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni. Fundurinn verður sýndur beint á öllum miðlum RÚV.

Kristín sagði í 3-fréttum útvarps að sjálft hraunflæðið eigi ekki að hafa nein áhrif á vegasamgöngur eða byggð. Hætta sé á fleiri skjálftum, hætta sé á gosmengun eða gasmengun og hún geti verið kröftug við upptökin. Fólk eigi að halda sig heima á Reykjanesskaganum.

Á milli klukkan 15 og 15:13 mældust fjórir skjálftar yfir 3 að stærð, sá stærsti var 4 og var klukkan 15:11.