Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Felldu tíu fyrrverandi FARC-liða í frumskógum Kólumbíu

03.03.2021 - 02:16
epa04706298 Colombian Army soldiers guard the area where an alleged FARC guerrilla attack on 14 April left 11 people dead, in Timba, Colombia, 15 April 2015. Colombian President Juan Manuel Santos on 15 April revived airstrikes on rebels of the
 Mynd: EPA - EFE
Kólumbíuher felldi nýverið tíu skæruliða sem áður börðust undir merkjum FARC, og særði þrjá til viðbótar í sprengjuárás á bækistöðvar þeirra í skóglendi í norðanverðu landinu.

Varnarmálaráðherra Kólumbíu, Diego Molano, greindi frá því á Twitter að þrettán skæruliðar hefðu verið „teknir úr umferð" í árás hersins. Allir hefðu þeir fylgt manni sem kallaður hefur verið „Gentil Duarte" að málum, en sá sagði sig úr lögum við fyrrverandi félaga sína í FARC þegar samtökin sömdu frið við stjórnvöld árið 2016 og lögðu niður vopn sín ári síðar.

Nokkrir vopnaðir hópar í frumskógum Norður-Kólumbíu

Árásin var gerð á frumskógarsvæði þar sem nokkrir hópar fyrrverandi FARC-liða, sem andvígir voru friðarsamkomulaginu, halda enn til. „Þessir eiturlyfjabófar eru sekir um að munstra ólögráða unglinga í sínar raðir, árásir á lögreglu og her, mannrán og ólöglega námastarfsemi," sagði Molano í færslu sinni og bætti því við að stjórnvöld muni „ekki una sér hvíldar" fyrr en Duarte verður handsamaður.

7.000 manna sérsveit til höfuðs uppreisnarsveitum

7.000 manna sérsveit tók formlega til starfa í Kólumbíu á föstudag í síðustu viku. Henni er ætlað að finna og fanga eða fella þá vopnuðu uppreisnarhópa sem enn eru á kreiki í frumskógum landsins og hafa lifibrauð sitt einkum af eiturlyfjaframleiðslu og annarri glæpastarfsemi, rétt eins og FARC á sínum tíma.