Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vinnsla hafin á loðnuhrognum á Akranesi

02.03.2021 - 20:29
Fyrstu loðnunni sem berst til Akraness í þrjú ár var landað þar í nótt. Um leið hófst vinnsla á loðnuhrognum og þar með verðmætasti tími loðnuvertíðarinnar. Bæjarfulltrúi á Akranesi segir bæði fjárhagslega og andlega mikilvægt að fá loðnu aftur í bæinn.

Það var Venus NS sem kom með 520 tonn af loðnu til Akraness og um leið og loðnunni hafði verið dælt í hús hjá Brimi hófst hrognataka. Fryst hrogn fyrir Japansmarkað eru verðmætasta afurð loðnuvertíðarinnar og mjög mikilvægt fyrir Skagamenn að loðna sé nú aftur komin þar á land.

Fólk kemur víða að til að vinna í loðnunni 

„Þetta náttúrulega skiptir gríðarlegu máli fyrir bæjarfélagið. Og kannski ekki bara bæjarfélagið, við erum að fá á land mikið magn sem þarf að vinna fljótt þannig að það er að koma hér fólk alls staðar að. Bæði af Snæfellsnesinu og hér hafa verið að koma bændur úr Dölunum síðustu 20 - 25 árin,“ segir Ragnar Sæmundsson, bæjarfulltrúi á Akranesi.

Bæði fjárhagslega og andlega mikilvægt

Þetta sé fjárhagslega mikilvægt en ekki síður andlega. Það að fá líf í höfnina og þessa vertíðarstemningu skipti miklu máli. „Já, klárlega! Menn náttúrulega voru orðnir hræddir um að við værum að sjá annað ár þar sem kæmi engin loðna.“

Verðmætar afurðir unnar úr loðnuhrognum á Akranesi

Í vinnslunni er loðnan flokkuð, hrygnan skorin, hrognin skilin frá og þau fryst. Hratið sem þá verður eftir og hængurinn, er brætt og þurrkað í mjöl. Þessi vinnsla skilar jafnan mestri framlegð á hverri vertíð. En hrognin fara ekki öll beint út fyrir bæjarmörkin. Vignir G. Jónsson er dótturfélag Brims á Akranesi sem vinnur ýmiss konar afurðir úr hrognum. Hluti þessara loðnuhrogna fer því í áframvinnslu hjá Vigni þar sem Masago er helsta afurðin - lituð hrogn sem notuð eru í sushi.

„Loðnan er bara hérna rétt fyrir utan“

„Hjá Vigni starfar mikið af flottu og hæfu fólki og því er mjög mikilvægt að við séum að fá þetta. Loðnan er bara hérna rétt fyrir utan, bara hérna fyrir utan í Faxaflóanum. Og vonandi verður bara meira af þessu og við fáum að sjá hér fleiri báta.“