Uppskrift að mannasúpu

Mynd: KrakkaRÚV / Húllumhæ

Uppskrift að mannasúpu

02.03.2021 - 13:49

Höfundar

Mannslíkaminn er úr efnum sem urðu til þegar stjörnur sprungu og dreifðu þeim um allan alheiminn. Sævar Helgi Bragason sýnir krökkum efnafræði mannslíkamans með því að skella í mannasúpu. Hún er sem betur fer ekki til manneldis.

Allt í kringum okkur er búið til úr sárafáum efnum. Þessi efni urðu til þegar stjörnur sprungu og dreifðu þeim um alheiminn. Í hjarta stjarnanna er gríðarlegur hiti. Hann gerir það að verkum að vetni sem er algengasta efni alheims og varð til í mikla hvelli getur myndað helíum. Helíum er þyngra en vetni og þegar það límist saman verða til enn þyngri efni. En úr hverju er maðurinn?

Uppskrift að 50 kílóa manneskju

Fyr­ir einn

  • 30 lítrar vatn.
  • 9 kg. kol.
  • Dass af fljótandi nitri.
  • 1 karfa kalsíum.
  • Skvetta af fosfór.
  • Dálítið kalíum.
  • Einn nagli.

Aðferð:

Hrærið efnunum vel saman í tómu fiskabúri. Bíðið þar til erfðaefni raðast upp í manneskju. Berið fram við stofuhita.

Nei sko! eru regluleg innslög í sjónvarpsþættinum Húllumhæ á föstudagskvöldum. Þar skoðar Sævar Helgi Bragason heim vísindanna með krökkum og fræðir krakka um hin ýmsu vísindi í daglega lífi, segir frá plánetum sólkerfisins og gerir skemmtilegar tilraunir. Sumar þeirra er auðvelt að leika eftir heima hjá sér en aðrar eru aðeins hættulegri og flóknari. Sævari til halds og trausts í tilraunastarfinu er Vilhjálmur Árni Sigurðsson, 12 ára efnafræðiáhugamaður.

Húllumhæ er á dagskrá á RÚV á föstudögum klukkan 18:35.