Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umferð ennþá minni á höfuðborgarsvæðinu en fyrir COVID

02.03.2021 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um það bil prósenti minni umferð var á höfuðborgarsvæðinu í febrúar á þessu ári en árið 2020. Umferðin hefur dregist saman um 3,5% frá áramótum en var meiri í síðustu viku en í sömu viku í fyrra. Umferðin var þó ögn minni en í vikunni áður.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar og að umferðarþungi hafi minnkað mest um Hafnarfjarðarveg af þeim stöðum sem mældir eru, eða um 6,3 af hundraði milli ára.

Umferð dróst mest saman á sunnudögum frá áramótum og minnkaði alla daga nema föstudaga þegar hún jókst um ríflega tíu prósent.

Niðurstaða greiningar Vegagerðarinnar er að umferð gæti aukist um 8% í samanburði við síðasta ár, verði ekki frekari truflanir af völdum kórónuveirufaraldursins.

Þótt það gangi eftir, nær umferðin ekki sama þunga og var fyrir faraldurinn. Munurinn stefnir í að verða um 3% frá árinu 2019.