Tókst að fyrirgefa banamönnum sonar síns

Mynd: RÚV / RÚV

Tókst að fyrirgefa banamönnum sonar síns

02.03.2021 - 12:29

Höfundar

Sonur Björns Hjálmarssonar sérfræðilæknis á BUGL lést með voveiflegum hætti í Hollandi árið 2002. Hann fannst með mikla áverka á höfði en dánarorsök kom aldrei fram. Björn tók þá ákvörðun í nafni Hjálmars sonar síns árið 2016 að fyrirgefa þeim sem voru ábyrgir fyrir dauða hans.

Reiði, réttlæti, forherðing, sjálfsblekking og fyrirgefning eru orð sem Björn Hjálmarsson notar um sorgarferlið sem hann gekk í gegnum eftir að sonur hans lést í Hollandi árið 2002 aðeins sextán ára gamall. Björn er gestur Sigmars Guðmundssonar í Okkar á milli í kvöld þar sem hann segir sögu sína til að vara aðra við því að falla ekki í sömu gildrur. Hann segir ekki hyggilegt að sjúkdómsvæða sorgina sem sé margslungið og flókið fyrirbæri. Björn ritaði minningarorð um son sinn sem birtust 8. febrúar í Morgunblaðinu, en þann dag hefði Hjálmar orðið 35 ára.

Léttir að fyrirgefa

Í maí 2016 flutti hann hugvekju í Hjallakirkju þar sem hann tók sér fyrir hendur að fyrirgefa banamönnum sonar síns. Það var ákvörðun sem tók á, en hann varð afskaplega feginn þegar honum tókst ætlunarverkið. „Það tók svo á mig að ég varð óvinnufær í nokkra daga. Þetta var ofboðslega sárt og erfitt ferli, ég varð alveg þróttlaus og það tók mig marga daga að ljúka handritinu að þessari hugvekju, en guð minn góður, hvílíkur léttir á eftir.“

Hann segir mikilvægt að fyrirgefningin sé ekki þvinguð fram, hún þurfi að koma sjálfsprottin en hún sé líka ákvörðun. „Með þessu þrekvirki tókst mér það sem eiginkonan leiðbeindi mér um, að hætta að láta ólánið skilgreina mig og fara að líta svolítið bjartari augum til framtíðarinnar.“

„Þú varst meistari fyrirgefningarinnar“

Að baki fyrirgefninu segir hann að liggi löng og ströng vinna en það séu ýmsar leiðir til að nálgast hana. „Það eru til góðar leiðbeiningar um fyrirgefningarferlið og fólk verður að finna það sem hentar því best. En það sem hentaði mér á meðan ég skrifaði grátandi þennan fyrirgefningartexta var að leika fallega tónlist, hafa kveikt á kertaljósi,“ segir hann.

Sonur hans hafi verið maður sem trúði á fyrirgefningu og í nafni hans gat faðir hans líka fundið hana. „Ég gekk reglulega að ljósmynd af Hjálmari mínum og horfði djúpt í augun á honum og sagði: Ég geri þetta í þínu nafni Hjálmar minn því þú varst meistari fyrirgefningarinnar.“

Okkar á milli er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Við óttuðumst um líf okkar alla daga“

Mannlíf

„Mín æska var ekki eins og æska á að vera“