Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Segir kvikuganginn breiðan og langan

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Kvikugangurinn sem valdið hefur skjálftahrinunni á Reykjanesskaga er líklega orðinn allt að eins og hálfs metra breiður og skríður nokkra kílómetra undir yfirborðinu í átt að Keili. Fimm skjálftar af stærðinni fjórir eða meira hafa orðið síðan á miðnætti. Þó hefur enginn skjálfti yfir þremur orðið síðan í hádeginu.

Svæðið þar sem flestir skjálftarnir hafa verið síðan í gær eru í suður af Keili í suðvesturátt að Fagradalsfjalli og einnig nokkrir við Trölladyngju. Þetta er einmitt á þessum stað sem þessi berg- eða kvikugangur er sem sást á gervihnattamyndunum sem sagt var frá í gær. 

„Þessi gangur er sem sagt að skríða þarna í áttina að Keili. Og gildna hægt og rólega,“ segir Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Á þessu svæði eru engar byggingar og engir vegir. Þarna er þessi gliðnun í bergganginum sem veldur þessum skjálftum og kvikan flæðir inn í ganginn: 

Hvað er þessi gangur breiður, þú ert að segja að hann þenjist út?

„Svona bráðabirgðalíkanareikningar sem búið er að gera upp á Veðurstofu benda til þess að hann sé af stærðargráðunni einn til einn og hálfur metri, eitthvað svoleiðis. Breiddin á honum, þykktin á honum, þar sem hann er búinn að gildna sko. Og svo er hann einhverjir kílómetrar á lengd og einhverjir kílómetrar á dýpt.“

Vísindaráð Almannavarna telur að kvikan annaðhvort muni minnka eða storkna eða þá að það yrði flæðigos með hraunflæði sem líklega myndi ekki ógna byggð. 

„Og þetta kannski má líkja þessu einhverju leyti við það sem var að gerast í Bárðarbungu og Holuhrauni hérna árið 2014 þá fór sem sé kvikugangur þar og barst eina 40 kílómetra frá Bárðarbungu.“

Halldór segir þó alls ekki von á svo löngu kvikuhlaupi á Reykjanesskaganum og eins er þar miklu minni kvika samanborið við Holuhraun eða 10 til 25 milljónir rúmmetra sem þykir lítið. 

Á stöðufundi Almannavarna í morgun var meðal annars farið yfir þá mögulegu röskun sem getur orðið á mikilvægum innviðum fari að gjósa meðal annars samgöngum, hitaveitu og rafmagni. Engar raflínur liggja á svæðinu en Landsnet er með Suðurnesjalínu eitt meðfram Reykjanesbraut og verður hægt að beita varaafli ef hún fer út. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Halldór Geirsson.