Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Lifðu í heilbrigðri óskynsemi

Mynd: - / Pexels-

Lifðu í heilbrigðri óskynsemi

02.03.2021 - 20:00

Höfundar

Halldór Armand Ásgeirsson fjallar um þá undarlegu trú mannsins að heilbrigð skynsemi sé gagnlegt leiðarljós í tilverunni. Hann segir þetta bábilju, þvert á móti eigum við að reyna að fylgja óheilbrigðri skynsemi.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Ég heyrði nýlega þá speki hafða eftir afabróður mínum Gunnlaugi heitnum að það væri mikill misskilningur að fólk eigi að lifa í heilbrigðri skynsemi. Þvert á móti væri lykillinn að góðu lífi að lifa í heilbrigðri óskynsemi. Þetta er góð hugsun og þegar ég heyrði hana fannst mér miður að hafa ekki fengið tækifæri til þess að spyrja karlinn hvað hann átti eiginlega við með þessu.

Svo mikið af heimspeki- og hugmyndasögunni snýst til dæmis um þá ímyndun að manneskjan geti lifað örugg í skjóli skynsemi sinnar eða þá haft slíkt taumhald á tilfinningum sínum í krafti skynsemi að hvers konar ófarir eða missir hafi engin áhrif á hana. En mest af því sem kemur fyrir okkur í lífinu hefur ekkert með það að gera hvað skynsemi okkar segir og tilfinningum okkar er ekki stýrt af hugsunum heldur líkamanum. Þess vegna er ekki hægt að hugsa sig inn í það að verða ástfanginn eða út úr sorg.

Menn beita skynsemi sinni og þekkingu til þess að öðlast smám saman meiri völd yfir náttúrunni. Síminn í vasanum þínum er miklu öflugri og betri en sambærilegt tæki fyrir tíu árum síðan. Nú líða hljóðlátir rafbílar um göturnar sem fyrir nokkrum árum voru hvergi sjáanlegir. Stundum held ég að þetta sé ein af ástæðum þess að það er svo viðtekið í dag að fella stóra siðferðisdóma yfir fortíðinni. Fyrir 200 árum ók fólk milli staða í hestakerrum og það þýðir væntanlega líka að hugmyndir þessa fólks hafi verið á jafn frumstæðu stigi, ekki satt? En það er ekki svo.

Siðferði ferðast kannski ekki beint í hringi eða er árstíðaskipt en það er miklu líkara tískuþróun í Levi’s gallabuxum heldur en einhverju sem hægt væri að kalla skynsamlega eða fyrirsjáanlega þróun. Núna eru útvíðar Levi’s aftur í tísku alveg eins og pyntingar og eftirlitsþjóðfélag eru núna ekkert sem fólk kippir sér sérstaklega upp við, öfugt við fyrir nokkrum árum eða áratugum. Það eru 100% líkur á því að framtíðin mun hlæja að okkur. Og eins erum við ekkert nær því að vita hvernig við eigum að lifa lífinu en hver annar forn-Egypti þótt hann hafi ekki átt þráðlaus heyrnatól. Við höfum alveg sömu þörf fyrir að dreifa huganum frá óþægilegustu staðreyndum mannlegrar tilveru og hann.

Kettir lifa ekki í ímyndaðri framtíð

Þetta er meðal annars tekið fyrir í bókinni Feline Philosophy, eða Kattaheimspeki, eftir enska heimspekinginn John Gray. Titillinn vísar til þeirrar kenningar Gray um að menn geti lært mikið af köttum um það hvernig lifa á lífinu, ekki síst vegna þess að kettir „lifa ekki í ímyndaðri framtíð“. Kettir þurfa ekki að segja sjálfum sér sögur um lífið og tilveruna til þess að lifa af. Þeir þurfa enga réttlætingu fyrir því að vera þeir sjálfir. Þeir leita ekki merkingar í eigin þjáningu. Og þeir virðast finna hamingju, eða að minnsta kosti frið og sátt, með því að leita hennar ekki skipulega, heldur einfaldlega framkvæma það sem þeim finnst áhugaverðast hverju sinni.

Við mannfólkið erum hins vegar vita vonlaus. Hugsunin er okkar Fall með stóru f-i. Frá nöðrunni fengum við sjálfsmeðvitund okkar að gjöf. Við vitum ekkert hvað við erum að gera hérna eða hvernig við eigum að fara að því að vera til, og við áttum okkur á því að við vitum ekkert. Við erum meðvituð um það. Þess vegna reiðum við okkur á ímyndunaraflið, það er okkar flótti.

Gray hefur eftir franska 17. aldar hugsuðinum Pascal að eina raunverulega hindrunin í vegi mannsins að því að finna hamingjuna sé að sú staðreynd að hann getur ekki setið í þögn heima hjá sér. En um leið er það þessi ókyrrð mennskunnar sem er vísbending um æðri heim í huga Pascal. „Mikilfengleiki mannsins hlýst af því að hann veit að hann vesæll: Tré hefur ekki hugmynd um að það hversu aumt það er. Þess vegna er vesælt að vita hversu vesæll maður er, en um leið er það mikilfenglegt … það er vesaldómur himins, vesaldómur hins snauða konungs. “

Samlandi hans Montaigne, sem var uppi aðeins á undan, leit hins vegar svo á að ókyrrð mennskunnar, sem sagt ástæðu þess að mannfólk getur ekki setið aðgerðalaust heima hjá sér og þagað, mætti rekja til þess að hið mennska dýr sé einfaldlega gallað. Við deilum þjáningu og hörmungum með vinum okkar í dýraríkinu. Munurinn virðist hins vegar vera sá að andi manna er speglasalur þar sem þessi þjáning margfaldar sjálfa sig til eilífðar með hugsun um hana. 

Pascal hæddist jafnframt að þeim órum að skynsemi geti verið mótefni við hinu mennska ástandi. Allar manneskjur eru á valdi ranghugmynda því það er leið þeirra til þess að fá einhverja festu í líf sitt og losna undan áþján sjálfsmeðvitundarinnar. Eins og Gray kemst að orði þá eru menn iðulega bæði tilbúnir til þess að deyða og deyja fyrir vitlausar hugmyndir vegna þess að þessar vitlausu hugmyndir eru það eina sem færir eitthvert vit í líf þeirra. Menn telja sér trú um að þeir séu skynsamir, en þeir eru það ekki.

Og það er svona sem ég skil lífsspeki afabróður míns um að það eigi frekar að lifa í heilbrigðri óskynsemi en skynsemi. Trúin á að þú getir einhvern veginn unnið lífið með skynsemi að vopni er bull. Í fyrsta lagi ræðurðu hér um bil engu um líf þitt. Þú ræður því kannski sirka hvoru megin þú ferð fram úr rúminu og hvort þú borðar mikið af kolvetnum eða ekki. En ekki mörgu öðru. Það hvernig þú ert að upplagi, hvar þú fæðist, inn í hvaða aðstæður og í hverju þú lendir hefur afskaplega lítið með skynsemi að gera. 

Það sem skiptir máli lýtur líka ekki skynsemi. Ég kynntist nánum vini mínum þegar ég var í skiptinámi og mætti fyrir tilviljun í nákvæmlega eins peysu og hann í skólann. Í öðru lagi þá ertu ekki skynsöm. Það eru allar líkur á því að þú, alveg eins og allar aðrar manneskjur, trúir alls konar hlutum sem hafa ekkert með skynsemi að gera, eiga sér enga raunverulega stoð í heiminum, og gerir stundum, jafnvel ítrekað, hluti sem þú veist ekki af hverju þú gerir. 

Ég vitna hér í Rómverjabréfið eins og svo oft áður, 7:19: Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég. Já, þarna er maðurinn, þetta er maðurinn, svona er maðurinn, ecco homo, gallagripur, gangandi mótsögn sem getur ekki séð heiminn nema í skuggsjá hugmyndanna.

Eins og höfundur Rómverjabréfsins skildi þá gera manneskjur ekki það sem þær vilja gera. Og þær skilja ekki af hverju þær gera það sem þær gera. Það er meðal annars vegna þess að í þriðja lagi þá viljum við innst inni ekki gera skynsamlega hluti. Margt af því eftirsóknarverðasta, áhugaverðasta og mest spennandi sem hendir fólk í lífinu á það sameiginlegt að fela í sér mikla áhættu og vera ekki á nokkurn hátt skynsamlegt.

Tökum til dæmis ástina, það óskynsamlegasta af öllu. Að vera ástfanginn er að hafa öllu að tapa. Það er það sem gerir upplifunina svona óviðjafnanlega, svo ægilega og stórfenglega í senn. Þú ert all in í leiknum og þú hefur aldrei verið meira á lífi. Þú ert bókstaflega fangi ástarinnar og þú hefur engar varnir, engar, nema þína eigin vitfirringu.

Svo af hverju eigum við að lifa í heilbrigðri óskynsemi? Vegna þess að óskynsemin dregur mótsagnirnar innra með okkur fram í dagsljósið. Hún sýnir hvað við erum tilbúin að leggja að veði, á hvað við trúum, hvaða drauma við eltum, hverju við erum tilbúin að tapa og viljum jafnvel innst inni tapa. Rugluðu hlutirnir sem þú gerir munu afhjúpa hver þú ert. Að lifa í heilbrigðri óskynsemi er að játast skilmálum heimsins eins og hann er og finna frelsið í því maður er gallaður og stjórnar engu. Það losar ólarnar og gefur manni kjarkinn til þess skora öðru hverju lífið á hólm, ekki þrátt fyrir að maður gæti tapað öllu, heldur vegna þess.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Samfélög rifna upp og niður

Pistlar

Prúðasti leikmaður McDonalds vinnur sigur

Pistlar

Þröskuldur villimennskunnar

Pistlar

Við öðlumst visku gegn vilja okkar