
Stefnt hefur verið að friðun þessa vestasta odda Íslands í þónokkurn tíma, en markviss vinna hefur staðið yfir í samstarfi stjórnvalda og landeigenda síðasta áratuginn.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir friðunina verða til þess að nú sé hægt að efla innviði.
„Til þess að taka betur á móti ferðamönnum og stýra umferðinni á einn stað frekar en annan þannig að það megi ná samhæfingu á milli þeirra sem búa í bjarginu, fuglanna, og ferðamannanna.“
Friðlýsingin tekur mið af því að enn verði hægt að stunda þar hefðbundnar nytjar, sem tíðkast hafa allt frá landnámi, svo sem eggjatöku.
„Við leggjum áfram áherslu á það að það sé innan sjálfbærnimarka. Þannig að þar gilda þá þau lög sem um það fjalla.“
Friðunin á ekki einungis að hjálpa til við að stýra ferðamönnum á landi, heldur einnig á hafi, þar sem hún nær líka út á sjó.
„Þannig megi horfa til þess að til langrar framtíðar séum við að taka utan um þetta svæði ásamt landeigendum sem þarna hafa líka unnið gott starf á undanförnum árum.“
Á næstunni fer frekari innviðauppbygging af stað, en ráðherra væntir þess að tillögur verði settar fram í nú í ljósi friðunarinnar.