Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðmundur Ingi stefnir á efsta sæti VG í Kraganum

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í efsta sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi.

Rafrænt forval um efstu fimm sæti listans verður haldið dagana 15. til 17. apríl næstkomandi en framboðsfrestur er til og með 24. mars.

Guðmundur á ekki sæti á Alþingi en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ákvað að sækja hann út fyrir raðir þingflokksins þegar ríkisstjórnin var sett á laggirnar í nóvemberlok 2017. 

Guðmundur Ingi er fæddur 28. mars 1977 og var framkvæmdastjóri Landverndar á árunum áður en hann varð umhverfis- og auðlindaráðherra.

Hann segist í tilkynningu hafa fylgt VG að málum frá upphafi. Það hafi ekki síst verið vegna áherslu á umhverfis- og náttúruvernd, mannréttindi og réttlátara samfélag.

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, tilkynnti í febrúar að hann sæktist eftir að fara fyrir framboðinu í kosningunum í haust. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir var í efsta sætinu í kosningunum 2017 en hún sagði sig úr Vinstri grænum í september síðastliðnum en gekk til liðs við Samfylkinguna um miðjan desember. 

Suðvesturkjördæmi er fjölmennasta kjördæmið með tólf sæti á Alþingi, þar af tvö jöfnunarsæti. Öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins utan Reykjavíkur tilheyra kjördæminu en þau voru áður hluti af Reykjaneskjördæmi.

Kjördæmið varð til með nýrri kjördæmaskipan sem komið var á árið 2000. Fyrst var kosið samkvæmt þeirri skipan í Alþingiskosningum 2003.