Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flekahreyfingar geta opnað leið fyrir kvikuna

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Komið hefur í ljós að kvika er að ryðja sér braut upp í jarðskorpuna á milli Fagradalsfjalls og Keilis á Reykjanesskaga. Jarðskorpan þarna er um 15 kílómetra þykk sem er svipað og vegalengdin á milli Hveragerðis og Selfoss. Vel yfir 1.600 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti en dregið hefur úr stórum skjálftum í dag.

Ólafur G. Flóvenz, jarðeðlisfræðingur hjá ISOR Íslenskum orkurannsóknum, var gestur Spegilsins í kvöld. Aðspurður segir hann ekki hægt að leggja mikið út frá því að stórum skjálftum hafi fækkað í dag. „Þetta gengur í hrinum. Væntanlega er kvika þarna á ferðinni en hún er kannski ekki að brjóta sér mjög ákveðið leið í gegnum jarðskorpuna,” segir Ólafur.   

En er vitað hvað kvikugangurinn hefur grafið sig langt upp í gegnum skorpuna?  

„Nei, en jarðskorpan er tvískipt og á um það bil sjö kílómetra dýpi verður hún deig. Þar liggja mörkin á milli þess hvar jarðskjálftar verða og hvar ekki. Í deigu jarðskorpunni verða ekki jarðskjálftar nema undir mjög sérstökum kringumstæðum. Í hinni brotgjörnu jarðskorpu, sjö kílómetra fyrir ofan, verða jarðskjálftar ef eitthvað er á ferðinni þar,” segir hann.  

Ólafur bendir á að búast megi við því að kvikan sé að koma neðan úr möttli jarðar. 

„Það er ekkert sem bendir til þess að það séu kvikuhólf neins staðar í skorpunni niður á þessa 15 kílómetra. Þannig að það má ætla að kvikan hafi verið á leiðinni upp í einhvern tíma neðan úr möttli jarðar. Hún rísi  hægt upp í gegnum neðri hluta jarðskorpunnar. Svo kemur hún að þessum brotmörkum, þar sem skorpan verður stökk og þá þarf hún að brjóta sér leið eða flekahreyfingarnar að opna leið fyrir kvikuna áfram upp. Það er væntanlega það sem er að gerast núna,” segir hann. „Að flekahreyfingarnar skapi skilyrði fyrir kvikuna að komast inn í hinn stökka hluta jarðskorpunnar.” 

„Þegar kvikan fer inn í svona mjóan sprunguflöt, menn hafa verið að tala um að þetta sé kannski einn metri á þykkt eitthvað svoleiðis, sem er algeng þykkt á berggöngum á landinu, þá er kvikan að færast nær yfirborðinu. Þá verða skjálftarnir samhliða,” segir Ólafur. Skjálftarnir þurfi þó ekki að vera stórir, þeir hafi verið um það bil tveir að stærð þegar kvika var að brjóta sér leið undir Upptyppingum á sínum tíma, að því að talið er.  

Ólafur segir að ekki hafi orðið feikilega stór eldgos á Reykjanesskaga á liðnum árþúsundum. Hitt sé annað mál að þessi staður, þar sem nú skelfur, sé mjög nálægt því að vera undir gíg Þráinsskjaldar, sem er gömul elddyngja þar sem gaus fyrir lok ísaldar fyrir 10-12 þúsund árum. Þar hafi komið fyrna mikið hraun upp miðað við önnur eldgos á þessu svæði, þannig að erfitt sé að segja fyrir fram hversu stór svona gos verði. Það geti orðið lítið en líka talsvert stórt. Það sé ómögulegt að segja til um það fyrir fram.