Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjöldi sóknarbarna fórnarlömb ofbeldis í Frakklandi

02.03.2021 - 18:27
Mynd með færslu
Aubervilliers er í norðausturhluta höfuðborgarsvæðisins. Mynd: AP
Mögulega hafa allt að tíu þúsund börn verið fórnarlömb ofbeldis af hálfu starfsmanna kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi frá árinu 1950. Frá þessu greinir Jean-Marc Sauve, yfirmaður rannsóknarnefndar sem kaþólska kirkjan setti á laggirnar. 

Sauve sagði ályktun frá í fyrra um að fórnarlömbin væru um þrjú þúsund talsins vera fjarri lagi. Líkur væru á að þau væru í það minnsta tíu þúsund. 
6.500 símtöl bárust sérstakri ábendingalínu fyrstu sautján mánuðina eftir að hún var opnuð í júní 2019. Sauve velti fyrir sér á blaðamannafundi í dag hversu hátt hlutfall fórnarlamba hefði samband, „eru það 25 prósent? 10 prósent, 5 prósent eða færri?," hefur AFP fréttastofan eftir Sauve.

Eftir margar fregnir um stórfellt ofbeldi innan kaþólsku kirkjunnar víða um heim samþykkti biskupanefnd kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi að skipa rannsóknarnefnd í nóvember 2018. Nefndina skipa yfir 20 manns, þeirra á meðal lögfræðingar, fólk úr heilbrigðisgreinum og aðrir sérfræðingar. Rannsóknarnefndin átti að skila niðurstöðum sínum fyrir árslok í fyrra, en fékk því frestað þar til í september í ár.