Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki líklegt að hraunflæðið næði yfir Hvassahraun

02.03.2021 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Miðað við staðsetningu skjálftavirkninnar núna eru ekki miklar líkur á að hraunflæði næði yfir Hvassahraun, það gæti náð út að Hrútagjá eða Lambafellsgjá,“ segir Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands, í samtali við fréttastofu.

Í skýrslu starfshóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2015, þar sem nokkrir ólíkir flugvallarkostir eru metnir og bornir saman, segir um Hvassahraun að þar sé hraunrennsli ólíklegt næstu aldir og að sömuleiðis séu taldar mjög litlar líkur á vandræðum vegna sprunguvirkni næstu aldir.

„Það er nú vitleysa,“ segir Þorvaldur um þær ályktanir sem eru dregnar í skýrslunni. „Við vitum að það eru gígar þarna rétt fyrir ofan sem gusu á 12. öld og í náinni framtíð getur alveg gosið aftur úr þeim aftur. Það er næsta víst að það verður gos þar í framtíðinni en maður hefur enga hugmynd um tímaskalann, það getur gerst hvenær sem er,“ segir hann. „Því þyrfti að rýna þetta vel, þessu fylgir áhætta sem tengist eldgosaógn, og það þyrfti að meta þá áhættu,“ segir Þorvaldur en ítrekar að ef gos kæmi upp þar sem skjálftavirknin er í augnablikinu sé mjög ólíklegt að það renni alla leið að Hvassahrauni. 

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við fréttastofu í dag að það væri mjög líklega kvikuinnskot og því gæti farið að gjósa, en að gos yrði sennilega lítið: „Því það mælast miklu fleiri minni gos heldur en stærri. En við höfum verið að teikna upp sviðsmyndir og miðað við hraun á þessu svæði sem er yfirleitt mjög seigt, og meðalstórt gos og sprungu þarna fyrir sunnan Keili, er mjög ólíklegt að það hefði áhrif í byggð,“ sagði hún. Í nýjustu spá Eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands segir að nú sé líklegast að norðurhluti mið Reykjanesskagans yrði undir hrauni, yrði af gosi. Líkur á að hraun fari til suðurs hafi heldur lækkað en það geti þó gerst.