Nýjasti rafknúni Volvoinn, C40, var kynntur í Stokkhólmi í dag. Mynd: EPA-EFE - TT
Volvo bílasmiðjurnar ætla á næstu árum að draga úr framleiðslu bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Markmiðið er að árið 2030 verði eingöngu framleiddir rafbílar, sem seldir verði í netverslunum.
Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í dag segir að stefnt sé að því að helmingur nýrra Volvo bíla verði rafdrifinn árið 2025. Volvo bílasmiðjurnar sænsku hafa verið í eigu kínverska fyrirtækisins Geely Holding frá árinu 2010.
Fleiri bílaframleiðendur stefna að því að framleiða eingöngu rafbíla á næstu árum; Jagúar í indverskri eigu frá 2025 og Ford frá 2030.