Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Barnæska í Jemen er sérstök gerð helvítis“

02.03.2021 - 19:20
Mynd: EPA-EFE / EPA
Ekki náðist að safna nema tæpum helmingi þess fjár sem þörf er á á áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir Jemen í gær. Fjármagnið sem þjóðir heims hétu er minna í ár enn í fyrra. „Að draga úr aðstoð er dauðadómur,“ sagði yfirmaður mannúðarmála eftir ráðstefnuna.

„Fyrir flesta er lífið í Jemen orðið óbærilegt. Barnæska í Jemen er sérstök gerð helvítis. Börnin í Jemen svelta,“ sagði Antonio Guterres,framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á ráðstefnunni í gær. 

Mynd með færslu
 Mynd: BBC
Skólinn er nánast rústir einar.

Eftir sex ár af stríði og hörmungum nær stór hluti þjóðarinnar vart að draga fram lífið. Hungursneyð er ekki eini fylgifiskur borgarastríðsins. Samkvæmt UNICEF er einn af hverjum fimm skólum ónothæfur og heil kynslóð barna vex úr grasi með lítinn sem engan aðgang að menntun. Í al-Wahda skólanum, rétt utan við borgina Taiz í suðvesturhluta landsins, hafa nemendur lítið skjól fyrir veðri og vindum. Kennsla fer fram í byggingu sem er nánast rústir einar. „Við viljum nýjan skóla, stóla ,dyr, glugga, töflur, ljós og rafhlöður. Hlutirnir þurfa að vera í lagi,“ segir Ahmed 9 ára nemandi við skólann. 

Að draga úr aðstoð er dauðadómur

Og brennandi sól, rigning eða rok eru ekki það eina sem börnin hafa áhyggjur af í skólanum. Ómur af skothríðum og sprengjum er daglegt brauð. „Einn daginn vorum við að læra og sáum flugskeyti fyrir ofan okkur. Við urðum hrædd þann dag og fórum,“ segir Ahmed. Jamila Al-Wahid skólastjóri  segir aðeins sér tveir kostir í stöðunni. „Annað hvort hættum við, námið hættir og við missum heila kynslóð eða við höldum áfram þrátt fyrir hættuna. Við kjósum að halda áfram þrátt fyrir hættuna til þess að þessi kynslóðeigi möguleika,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: BBC
Ahmed er einn nemenda sem fréttamaður BBC ræddi við.

Markmið áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í gær var skýrt. Safna þurfti 3,8 milljörðum dollara. Sú varð ekki raunin, alls náðist að safna 1,7 milljörðum dollara, sem er minna en í fyrra. Þar af komu rúmar 2,2 miljónir dollara eða 285 milljónir króna frá íslenskum stjórnvöldum. Vonbrigðin leyndu sér ekki eftir daginn. „Áheitasöfnun okkar fyrir Jemen í dag olli vonbrigðum. Milljónir barna, kvenna og karla í Jemen þurfa hjálp til að halda lífi. Að draga úr aðstoð er dauðadómur,“ sagði Mark Lowkcok yfirmaður mannúðarmála hjá SÞ.