Mótmælendur flýja táragas öryggissveita í Yangon í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Búist er við auknum þrýstingi á herforingjastjórnina í Mjanmar þegar utanríkisráðherrar ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu, koma saman til fundar í Singapúr í dag, en ekki þó gert ráð fyrir að fundurinn breyti miklu um þróun mála í landinu.
Það hefur verið stefna samtakanna að skipta sér ekki af innanríkismálum aðildarríkja, en þau hafa engu að síður sætt gagnrýni fyrir aðgerðarleysi eftir að herinn rændi völdum í Mjanmar.
Sum hinna tíu aðildarríkjum hafa síðustu daga hafa þó fordæmt framgöngu öryggissveita gegn almennum borgurum í Mjanmar, þar á meðal Singapúr, en stjórnvöld þar telja hins vegar refsiaðgerðir ekki þjóna tilgangi og bitna einkum á almennum borgurum.
Stjórnvöld í Indónesíu hafa hvatt til endurreisnar lýðræðis í Mjanmar.