Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ætla að byrja á að knúsa barnabörnin

02.03.2021 - 12:09
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
„Ætli við byrjum ekki á því að knúsa barnabörnin,“ segja hjónin Sigrún Erla Sigurðardóttir og Páll Ásmundsson, um það sem þau hlakka til að gera að lokinni bólusetningu við COVID-19. Kristín Sigurðardóttir fréttamaður ræddi við þau í Laugardalshöll í morgun þar sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem eru fæddir árið 1939 og fyrr eru bólusettir í dag og á morgun.

Sigrún Erla segir að stundin sé langþráð. „Já, ætli það ekki bara,“ segir Páll svo og hlær.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur 3.400 skammta af bóluefni bandaríska lyfjarisans Pfizers til þess að bólusetja fólk fætt árið 1939 og fyrr í Laugardalshöll í dag og á morgun klukkan 09-15. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við fréttastofu í gær að þeir sem ekki hefðu fengið SMS með boði í bólusetningu gætu mætt hvenær sem er milli 9 og 15.

Um 8.900 manns verða bólusettir á landsvísu í þessari viku. Fólk í aldurshópnum 80 ára og eldri verður bólusett með 4.600 skömmtum af bóluefni Pfizers og 4.300 starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila verða bólusettir með bóluefni AstraZeneca. Allt bóluefni sem fer í dreifingu í vikunni verður notað til að bólusetja fyrri bólusetningu.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV