Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Verðmætasti tími loðnuvertíðarinnar framundan

01.03.2021 - 17:59
Mynd með færslu
Loðnuhrogn unnin hjá Eskju á lokadögum vertíðarinnar Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Loðnufrystingu á vertíðinni er nú um það bil að ljúka og við tekur vinnsla á loðnuhrognum. Vegna veðurs hefur lítið veiðst af loðnu frá því á föstudag en flest skipin eru nú við loðnuleit á Breiðafirði.

Hjá öllum þeim útgerðum sem haft var samband við í dag er reiknað með að hrognataka hefjist þegar skipin landa næst. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu eru tæp 24 þúsund tonn af loðnu komin á land og hefur allt hráefnið farið í vinnslu til manneldis.

Fryst loðnuhrogn verðmætasta afurðin á vertíðinni

Enn eru því um tveir þriðju kvótans eftir en loðnuhrogn eru verðmætasta afurðin á vertíðinni og því mikilvægur tími framundan. Loðnan er skorin,  hrognin skilin frá og þau fryst. Hratið sem þá verður eftir er brætt og þurrkað í mjöl. Þessi vinnsla skilar jafnan mestri framlegð á hverri vertíð en útgerðirnar hafa oft stuttan tíma til að ná þessum verðmætum enda styttist í að loðnan hrygni.

Japanir fylgjast grannt með vinnslunni 

Hrognafull loðna og loðnuhrogn eru að langmestu leyti seld til Japans - fulltrúar japanskra loðnukaupmanna eru hér alla vertíðina og fylgjast grannt með þessari framleiðslu.