Í stað þess að bíða þar til platan væri fullunnin, hefur Sváfnir reglulega gefið út lög sem „singla“. Þannig hafa lögin Fólk breytist, Fer sem fer og Líttu aftur öll heyrst áður en þau komu út sem hluti af nýju plötunni, Jæja gott fólk.
Alls komu 20 tónlistarmenn að gerð plötunnar á einn eða annan hátt en kjarnann í teyminu í kringum þessa plötu skipa þeir Flosi Þorgeirsson, bassaleikari, Kristján Freyr Halldórsson, trommuleikari, Pálmi Sigurhjartarson, hljómborðsleikari og Stefán Már Magnússon, gítarleikari. Upptökur og hljóðblöndun var að lang mestu leyti í höndum Arons Þórs Arnarssonar en platan er tekin upp í þremur hljóðverum og þar sem færi gafst hverju sinni. Sváfnir semur öll lög og texta plötunnar.
Lagið Þetta fley er ekki að fara neitt er það lag plötunnar sem hefur fengið mesta athygli undanfarið. Það er jafnframt það síðasta sem Sváfnir samdi fyrir plötuna og það fæddist nánast fullskapað sem dúett. „Ég vildi ólmur fá Hildi Völu til að syngja með mér af tveimur ástæðum: Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hennar, og svo var ég viss um að hún hentaði fullkomlega í lagið. Ég varð því afskaplega glaður þegar hún sló til og finnst útkoman frábær,” segir Sváfnir.
Jæja gott fólk er gefin út á vínyl en ekki á geisladiski. „Ég ákvað eftir langa umhugsun að gefa plötuna út á vínyl, en ekki á CD,” segir hann. Það hafi verið mikil tilhlökkun að fá að handleika vínylinn, enda trúi hann því staðfastlega að tími vínylsins sé kominn aftur. „Það fylgir honum fegurð og kyrrð sem unnendur tónlistar fá ekki að sama skapi þegar þeir renna disk í slíður eða ýta á play á Spotify. Þótt þetta sé sama tónlistin þá jafnast ekkert á við það að spegilgljáandi sjá vínylinn snúast á fóninum.“
Jæja gott fólk er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð ásamt kynningum Sváfnis Sig eftir 10-fréttir í kvöld, auk þess að vera aðgengileg í spilara.