Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stækkuð Norræna kemur 9. mars - áhugi á síðsumarferðum

01.03.2021 - 09:20
Mynd með færslu
 Mynd: Stækkuð Norræna - Smyril Line
Stækkun Norrænu er næstum lokið í skipasmíðastöð í Danmörku. Ferjan lætur úr höfn í þessari viku og er væntanleg til Seyðisfjarðar 9. mars. Framkvæmdastjóri Smyril Line býst við ágætri ferðamannavertíð seinni part sumars og að annatími gæti lengist fram á haustið.

„Það er auðvitað komin upp ferðaþörf. Við erum að fá töluvert af fyrirspurnum. Fólk er byrjað að hugsa og spyrjast fyrir um en þetta beinist allt á seinnipart sumars. Júlí og ágúst þessar fyrirspurnir og jafnvel spurning hvort þetta lengist aðeins kannski út í september; í haustáttina,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi.

Það verður talsvert breytt Norræna sem siglir inn Seyðisfjörð að morgni þriðjudagsins 9. mars. Búið er að bæta heilli hæð ofan á dekkið með veitingastað, bar og heitum pottum; bæta við 50 nýjum tveggja manna káetum og endurnýja innréttingar.  Fyrir breytinguna gat Norræna mest flutt næstum 1500 farþega 1582 og um 900 ökutæki. Nú verður hægt að fjölga farþegum um hundrað en á háannatíma hefur hún flutt um 1100 ferðamenn til landsins í hverri viku og um 700 ökutæki.

Linda segir að hugmyndir um að nýta siglingatímann til Íslands sem eins konar sóttkví hafi ekki hlotið hljómgrunn hjá sóttvarnaryfirvöldum en staðan gæti batnað mjög þegar fleiri fá bólusetningu. „Já, það er bara vonandi. Þá þarf að fá það staðfest hvaða vottanir Ísland samþykkir. Í hvaða formi þær verða. Sóttvarnarlæknir hefur verið í fréttum um það að Það sé verið að gera samhæfðar staðfestingar sem Ísland getur svo samþykkt með Evrópusambandinu þannig að við fylgjum bara þeim reglum sem þau koma með. En vonandi verður það að þeir sem eru bólusettir fari að drífa sig að ferðast og komi þá til Íslands.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV