Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sarkozy fékk dóm fyrir spillingu

01.03.2021 - 13:30
Mynd með færslu
Nicolas Sarkozy. Mynd: EPA - EPA POOL
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, var sakfelldur í dag fyrir spillingu. Hann fékk þriggja ára fangelsisdóm, þar af tvö ár skilorðsbundin. Sarkozy var ákærður fyrir að hafa boðið dómaranum Gilbert Azibert góða stöðu í Mónakó gegn upplýsingum um stöðu rannsóknar á fjármálum hans þegar hann sóttist eftir forsetaembættinu. Hann neitaði sök.

Saksóknarar fóru fram á að Sarkozy yrði dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir brot sín og yrði látinn afplána tvö. Þar sem dómurinn hljóðar upp á eitt ár óskilorðsbundið er ólíklegt að hann verði látinn afplána bak við lás og slá. Í Frakklandi er venjan sú að einungis þeir sem fá þyngri fangelsisdóm en tvö ár eru settir í fangelsi. 

Sarkozy gegndi embætti forseta Frakklands á árunum 2007 til '12. Hann hugðist sækjast eftir endurkjöri árið 2017 en varð að hætta við vegna yfirvofandi málaferla. Ári síðar lýsti hann því yfir að hann væri hættur afskiptum af stjórnmálum.