Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sá eini sem var með lykil að stöðinni

Mynd:  / 

Sá eini sem var með lykil að stöðinni

01.03.2021 - 07:12
Björgvin Karl Guðmundsson hefur verið í hópi fremstu Crossfit-keppenda heims síðustu ár. Hann hefur tvisvar sinnum lent í 3. sæti á heimsleikunum og stefnir ótrauður að heimsmeistaratitlinum á næstu leikum sem fara fram í sumar.

Nýlega vann Björgvin Karl Reykjavíkurleikana en mótið fór fram í byrjun febrúar. Ákveðið var að halda mótið með skömmum fyrirvara og hann segir það hafa verið gott að hoppa á keppnisgólfið aftur, en síðustu mót hafa farið fram á netinu. Björgvin Karl var gestur í Sportrásinni á Rás 2 þar sem hann fór yfir ferilinn hingað til og næstu heimsleika þar sem hann stefnir á sigur. 

Björgvin Karl var alltaf mikið í íþróttum sem barn og æfði bæði fótbolta og fimleika. Hann var hættur í báðum íþróttum þegar bróðir hans bauð honum með á Crossfit-æfingu árið 2012. „Ég mætti bara á eina svoleiðis æfingu og það var bara ekki aftur snúið,” segir hann.

Keppnisandinn í hópnum heillaði hann en þetta var svokallaður afrekshópur. „Það var ekki bara hinn hefðbundni iðkandi sem mætir á æfingu til að eiga heilbrigt líf. Það var þarna fólk með ákveðin markmið og ég passaði beinustu leið þarna inn,” segir hann.

Á þessum árum bjó hann á Stokkseyri og reyndi að gera þær Crossfit-æfingar sem hann gat heima hjá sér auk þess sem hann keyrði reglulega til Reykjavíkur til að mæta á æfingar. Stuttu síðar opnaði bróðir hans og mágkona Crossfit-stöðina Hengil í Hveragerði og Björgvin Karl byrjaði að æfa þar. 

Fljótt einn sá besti í heimi

Á skömmum tíma var Björgvin Karl kominn í hóp þeirra bestu á Íslandi og eftir að hafa æft í hálft ár endaði hann í 2. sæti á Íslandsmótinu. „Þá fæ ég meiri trú á að ég geti gert þetta. Svo árinu eftir kemst ég inn á það sem kallast Evrópumót,” segir Björgvin Karl. Honum gekk vel á Evrópumótinu og var fljótlega kominn í hóp þeirra 10 bestu í Evrópu og vann sér þá sæti á heimsleikunum. 

Eftir að hann varð keppandi á heimsleikunum gjörbreyttist í raun allt hjá honum. „Þú færð fyrst alvöru umfjöllun um sjálfan þig þegar þú ert orðinn heimsleikakeppandi, þá ertu kominn í þann hóp og kominn með ákveðna virðingu. Þeir sem eru í íþróttinni vita að það þarf rosa mikil gæði til að komast á heimsleikana. Þetta er svolítið eins og að komast á Ólympíuleikana. Líka hversu fáir það eru sem taka þátt í Heimsmeistaramótinu,” segir Björgvin Karl sem tryggði sér fyrst sæti á heimsleikunum árið 2014. Hann hafði þá keppt á Íslandsmótinu 2012, farið á Evrópumótið 2013 og svo heimsleikanna 2014. „Maður er alltaf að fá meiri og meiri trú á sér og maður er að sjá svo miklar framfarir. Það heldur manni gangandi. Ég held að ég væri ekkert endalaust að reyna og reyna ef ég kæmist ekkert áfram. Þá held ég að ég væri ekkert endilega í þessari íþrótt lengur,” segir hann. 

Umgjörðin alltaf að stækka

Vinsældir íþróttirnar hafa aukist verulega á síðustu árum og þessar auknu vinsældir fara ekki fram hjá keppendum. „Umgjörðin er öll að stækka með hverju árinu. Á heimsleikunum komast miklu færri að til að horfa en vilja. Allir miðar seljast alltaf upp og allir fjölmiðlar og svona í kring er að verða rosalega stórt. Það er pínulítið að smita út frá sér niður í þessu miðlungsmót. Þessi Evrópumót sem ég var að tala um, það er líka alltaf að stækka. Gæðin eru alltaf að fara upp, þú ert að fá fleira gott fólk inn á Evrópumót sem vert er að fylgjast með. Þetta er að skapa fleiri tækifæri fyrir fleiri en eru bara inn á heimsleikunum. Fyrir utan heimsleikana eru alltaf að poppa upp flott mót með góðu verðlaunafé og það dregur fólk að, alveg klárlega,” segir Björgvin Karl.

Keppendur geta lent í vandræðum með undirbúning fyrir heimsleikana þar sem skipuleggjendur reyna oft að koma keppendum á óvart með nýjum æfingum sem ekki hafa sést áður. Björgvin Karl segir að það sé alltaf hægt að áætla að skipuleggjendur séu með nokkrar hefðbundnar æfingar sem innihalda hreyfingar sem hann er alltaf að æfa. „En svo koma inn á milli þessar óhefðbundnu æfingar. Ég nefni sem dæmi peg board, klifurveggur með pinnum. Það og svona heyrúlla sem maður dregur, það var vandasamt líka. Þeir eru alltaf að reyna að finna eitthvað nýtt, sem margir eru í basli við að finna út úr á þeim tíma. Ég held að ég sé mjög góður í því að finna út úr hlutunum um leið og þeir koma. Ég hef aldrei lent í neinu sérstöku veseni með eitthvað nýtt sem er verið að prufa. Það er meira spennandi fyrir mig,” segir hann.

Flest mótin sem Björgvin Karl hefur tekið þátt í hafa farið fram erlendis og hann hefur því ferðast út um allan heim til að keppa í Crossfit. Heimsleikarnir árið 2015 standa þó alltaf upp úr en þar náði hann verðlaunasæti í fyrsta sinn. „Það gaf manni svo mikið að hoppa úr því að vera í 26. sæti árið 2014 og í 3. sæti 2015. Það gaf manni alvöru kraft að það væri möguleiki að vinna mótið einhvern tímann. Það að ég hafi komist inn á leikana 2014 hafi ekki verið einhver heppni heldur kom ég árið eftir og gerði miklu betur. Ég hef alltaf haft það á bak við eyrað, að ég get þetta alveg jafn mikið og allir aðrir,” segir Björgvin Karl og bætir við að árangurinn 2015 hafi átt lykilþátt í því að sannfæra hann um að hann gæti alveg unnið þetta mót eins og allir aðrir. 

Einn með lykil af stöðinni 

Þegar samkomutakmarkanir voru hvað strangastar á Íslandi hafði það áhrif á fjölmargt íþróttafólk. Björgvin Karl slapp þó furðuvel. „Ég er kannski heppnari en flest allir aðrir af því að bróðir minn og konan hans eiga stöðina og ég var sá eini sem var með lykil. Hvorki þau né nokkur annar var að koma þarna inn. Á meðan það var æfingabann gat ég verið sá eini sem var í húsinu,” segir Björgvin Karl sem er vanur því að æfa einn. Hann æfir í Henglinum í Hveragerði og segist alltaf hafa þurft að æfa mikið sjálfur og þetta hafi því verið lítil breyting fyrir hann. 

Þau mót sem ekki var aflýst færðust einnig á netið í sumar en Björgvin Karl kunni ágætlega við það fyrirkomulag. Hann var í raun alveg kominn með nóg af ferðalögum og naut þess að sofa í eigin rúmi eftir hvern keppnisdag. „Það var fínt að fara frá heimilinu mínu yfir í stöðina og þegar dagurinn var búinn var ég bara kominn í mitt rúm aftur. Eins þegar keppnin var búin, ekkert mál. Ég kláraði síðustu æfinguna og svo var ég bara búinn, kominn heim, fór bara á Hofland í Hveragerði og fékk mér pizzu,” segir hann. 

Þegar nær dregur heimsleikunum stefnir hann á að fara til Bandaríkjanna, þar sem mótið fer fram, til að venjast hitanum og einbeita sér að fullu að mótinu, enda erfitt að æfa löng útihlaup í miklum hita hér á landi. „Það virkar alveg svakalega vel. Þá er maður farinn úr þessu daglega lífi sem er hérna heima yfir í að þú ert ekki að gera neitt annað nema að æfa, borða og sofa. Þá bý ég yfirleitt með þjálfaranum og þeim sem ég er að æfa með á þeim tíma,” segir Björgvin Karl en sambýlingar hans í þessum ferðum eru yfirleitt Annie Mist og maðurinn hennar, Frederik Aegidius, en þau eru öll með sama þjálfara.

Auk þess að æfa sjálfur á fullu starfar Björgvin Karl einnig sem þjálfari í Hveragerði. Dagarnir geta því verið ansi langir hjá honum. „Ég þjálfa niður í stöð, það eru svona 1-3 tímar á dag. Ég fer alltaf á æfingu klukkan 9.30 á morgnana. Svo fer ég heim og fæ mér að borða, legg mig yfirleitt ef ég hef tíma til þess í svona 30 mínútur. Svo fer ég aftur á æfingu. Hver æfing er að taka upp undir tvo og hálfan klukkutíma. Þannig að þetta eru svona fimm klukkutímar sem fara í æfinguna auk þess að maður er að fara heim á milli og hvíla sig eins og maður getur, borða vel. Svo mögulega þjálfa ég aftur seinnipartinn. Þetta er alveg fullur vinnudagur og rúmlega það. Þetta getur oft tekið rosalega mikið á líkamlega að gera þetta allt á einum degi,” segir hann.

Langar og erfiðar æfingar taka sinn toll líkamlega og endurheimt getur því skipt afskaplega miklu máli. Björgvin Karl segist vera kominn með góða rútínu hvað það varðar og segir að góð hvíld, svefn og mataræði skiptir mestu máli. Hann segir marga einblína of mikið á einhverja töfralausn í stað þess að einbeita sér að því sem hefur mestu áhrifin, það er svefn og næring. „Margir einblína á það sem við köllum þetta eina prósent, en gleyma þessum 50-60% sem eru að borða og sofa vel. Eru meira til í að einblína á eitthvað sem á mögulega að gera eitthvað fyrir einhvern sem er nú þegar með alla hina hlutina á hreinu. Maður sér þetta alltof mikið,” segir hann.

Stefnir á heimsmeistaratitilinn

Eftir að Björgvin Karl vann Reykjavíkurleikana í byrjun febrúar sagði hann að stefnan væri sett á heimsmeistaratitilinn. Einn sigursælasti Crossfit-keppandi sögunnar tilkynnti nýverið að hann væri hættur. Erlendir miðlar sem fjalla um Crossfit spá margir hverjir að Björgvin Karl sé einmitt líklegastur til að vinna heimsleikana í sumar. Sjálfur er hann óhræddur við að setja stefnuna á toppsætið. „Já, bara alveg 100%. Það er annar aðili að fara að vinna og það getur alveg eins verið ég eins og hinir sem eru að spá í nákvæmlega því sama,” segir hann. Þarna geti hugarfar skipt miklu máli. „Ég held að það sé númer 1,2 og 3. Ef þú ert ekki með það er þetta aldrei að fara að gerast, sama hversu góðu formi þú ert í. Það eru aðrir þarna í sama eða svipuðu formi og þú. Hugarfarið skiptir 100% öllu máli og reyna að ljúga því að sér að þú getur þetta bara.”

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér:

Tengdar fréttir

Íþróttir

Björgvin og Jóhanna Reykjavíkurmeistarar í Crossfit