Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísólfur enn jeppalaus eftir skriðuna í desember

01.03.2021 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Haraldsson - Ísólfur
Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði er enn án björgunarjeppa eftir skriðuföllin í demember þar sem trukkur sveitarinnar skemmdist. Sveitin er í mikilvægu hlutverki við að bjarga fólki af Fjarðarheiði og tryggja sjúkraflutninga í ófærð. Helgi Haraldsson, formaður Ísólfs, segir aðrar björgunarsveitir hjálpa til og jeppa í einkaeigu tiltæka í neyð.

Staðan fer batnandi

„Við erum kannski ekki alveg í bestu málunum eins og er. Við erum með einn óbreyttan bíl sem nýtist okkur kannski ekki mikið á Fjarðarheiðina. Þegar skriðuföllin voru vorum við með einn í vélarskiptum sem sagt breyttan bíl og hann er ekki alveg kominn á lappirnar en það styttist. Svo náttúrulega fór trukkurinn okkar dálítið illa í skriðunni. Hann er nú lagður af stað í bataferli skilst mér. Fjarðarheiðin er samvinnuverkefni. Við eigum mjög góða félaga bæði í björgunarsveitinni Hérað og björgunarsveitinni Jökli á Jökuldal. Þeir bakka okkur upp eins og fyrr. Þeir leysa þetta á meðan við erum í þessari lægð. En við eigum svo sem bakkup í einkabílum líka ef illa fer og förum á móti þeim en þetta er staðan akkúrat núna en hún fer batnandi vonandi," segir Helgi. 

Vita ekki annað en sveitin fái að starfa áfram í húsnæðinu

Stóra skriðan sem féll 18. desember skemmdi húsnæði Ísólfs og lenti meðal annars á nýbyggðu 200 fermetra tækjahúsi. „Ætli það hafi ekki verið um vika síðan við settum síðustu hurðina í húsið áður en skriðan kom á það. Það skemmdust einhverjar hurðar og einingar en eins og staðan er í dag þá vitum við ekki annað en að við megum vera þarna þangað til eitthvað annað kemur í ljós. Maður veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er búið að sem sagt aflétta rýmingu þarna og við erum komnir í húsið okkar og starfsemin er smátt og smátt að skríða saman,“ segir Helgi. 

Þakklát fyrir styrki

Vegna erfiðleikanna fékk Ísólfur fimm milljónir í styrk frá ríkisstjórninni auk framlaga fram einstaklingum fólki og fyrirtækjum. „Við höfum fengið mjög góðan velvilja og þökkum kærlega fyrir þann velvilja sem okkur hefur verið sýndur og það nýtist mjög vel í að koma þessu á lappirnar aftur,“ segir Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.