Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Flugfreyjustarfið sem mynd af lífi og sögu konunnar

Mynd: Gladiator forlag / Gladiator forlag

Flugfreyjustarfið sem mynd af lífi og sögu konunnar

01.03.2021 - 11:59

Höfundar

Síðastliðið vor kom út hjá danska forlaginu Gladiator íslensk/dönsk skáldsaga Crash Kalinka. Höfundurinn Sigríður Larsen er íslensk í húð og hár en hefur stærsta hluta lífs síns verið búsett í Danmörku. Crash Kalinka segir frá flugfreyjunni Sólveigu Kalinku Karlsdóttur sem býr í Kaupmannahöfn en á rætur að rekja norður í land á Íslandi. Þetta er samtímasaga en einnig ættarsaga auk þess að fjalla um söguleg tengsl Íslands og Danmerkur.

Í skáldsögunni Crash Kalinka fylgjum við Kalinku í þeirri ákvörðun að gerast flugfreyja um leið og sagan segir líka sögu formæðra hennar og - feðra aftur í aldir sem og Íslandssöguna frá byrjun. Fyrst og fremst er þetta þó saga um sigurgöngu kapítalismans og hvernig peningar, arður og ágóði, ákvarða alla hluti þar á meðal útlit og tilgang kvenlíkamans. Margt fleira ber á góma í þessari sögu eins og t.d. loftslagsbreytingar og júróvisjón og allt er þetta sett fram á fljúgandi fart í sviðsetningum sem vísa oft til söngleikja og dægurlaga ýmsum tímum. „Þetta byrjaði á ljóðum sem síðan urðu að sögu,“ segir Sigríður aðspurð um tilurð bókarinnar Crash Kalinka sem er mjög sérstök í stíl og frásagnaraðferð. „Já, það er kannski enginn eiginlegur söguþráður í bókinni heldur margir og ólíkir atburðir sem varpa ljósi hver á annan.“ Crash Kalinka er ekki löng skáldsaga en perónurnar í henni eru fjölmargar og frá ólíkum tímum og þær eru svolítið eins og leiddar fram í ákveðnum aðstæðum sem eru lýsandi fyrir áhrif þeirra í sögunni og á líf Kalinku. „Já, þetta eru karakterar sem ég set i á svið eins og marionettur eða leikbrúður; þetta er fólk frá fyrri tíð sem bjó við mikið ófrelsi og svo er Kalinka í nútímanum sem í samanburði býr við ótakmarkað frelsi en á sér samt enga rödd - er bara peð í atburðarás þar sem hún ræður engu,“ segir Sigríður í viðtalinu og bætir við, „Hér er samt ekki um neins konar örlög að ræða heldur bara atburði sem hún verður að bregðast við og mér var í mun að fylgja því formi bókarinnar að þar er í rauninni enginn einn sögumaður.“

Kjarni frásagnarinnar er flugfreyjustarfið, undirbúningurinn undir það og samkeppnin sem ríkir um þetta draumastarf svo margra. Grunnurinn sem allt byggist á er „Grooming manuallinn“, sem er eins og segir á einum stað: „Appelsínugul innbundin biblía upp á 53 síður og þar stendur allt svart á bleiku, á stirðbusalegri ensku með áhrifamiklum myndum og örvum fyrir þá sem ekki ná orðunum nógu vel ...," og þarna er að finna leiðbeiningar um allt sem viðkemur starfi flugfreyjunnar, allt frá flugfreyjuhnútnum velþekkta, French Twist, til leiðbeininga um framkomu og snyrtingu sem og aðgerðir við nauðlendingu hvort heldur á sjó eða á landi. „Mér hefur oft fundist eins og allt það sem konur gera, það sem tekur tíma þeirra og hugsun, eins og að setja á sig augnskugga, eignast börn, vaska upp sé ekki tekið með og stór hluti af þessum kvenleika kristallast í  „Grooming manual“, bókin fæddist eiginlega við lestur hans,“ segir Sigríður um óvenjulega fyrstu skáldsögu sína Crash Kalinka.   

Sigríður Larsen fæddist líkt og söguhetja hennar Kalinka á Íslandi en fluttist síðan til Danmerkur og ættbogi Kalinku sem segir frá í sögunni er byggður á hennar eigin ættboga. Þetta er samt alls ekki heimildasaga, „það er ekkert satt í texta sögunnar en heldur ekkert ósatt,“ segir Sigríður.  

Sigríður stundaði á sínum tíma nám við rithöfundaskóla Gladiatorforlagsins sem nokkrir þekktir danskir rithöfundar, þ.á.m. Josephine Kloughard stofnuðu árið 2013. Strax á meðan á náminu stóð fór hún að kenna við skólann og flutti síðar hugmyndafræðina með sér hingað til lands, nánar tiltekið til Seyðisfjarðar. Nú hefur það útibú Gladiatorskólans flutt sig um set til Akureyrar þar sem Sigríður er nú búsett.

Skáldsagan Crash Kalinka vakti nokkra athygli þegar hún kom út í Damörku á síðastliðnu ári og var m.a. rætt við höfundinn, Sigríði Larsen, í danska útvarpinu og gagnrýni um bókina birtist í Berlinske tidende í júlí á síðasta ári.