Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert sem bendir til óeðlilegra samskipta

Áslaug Arna og Andrés Ingi
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vissi, þegar hún hringdi í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag vegna Ásmundarsalarmálsins, að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði verið í salnum. Þingmaður Pírata segir ekkert benda til þess að samskiptin hafi verið óeðlileg. 

Áslaug Arna kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun að beiðni Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, þar sem hún svaraði fyrir samskipti sín við Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag í kjölfar tilkynningar frá lögreglu um að ráðherra hefði verið meðal gesta í Ásmundarsal á Þorláksmessu þar sem sóttvarnareglur voru brotnar.

Síðar kom í ljós að umræddur ráðherra var Bjarni Benediktsson. Andrés Ingi segir að tilgangurinn með því að fá ráðherra fyrir nefndina hafi verið að fá milliliðalausar upplýsingar og að lögreglustjórinn muni koma fyrir nefndina á morgun.

„Svona samskipti geta verið á mörkum eftirlitshlutverks ráðherrans og og síðan óeðlilegra afskipta af máli sem er í rannsókn hjá lögreglu. Við vildum bara fullvissa okkur um að þarna væri allt réttu megin línunnar,“ segir Andrés Ingi.

Og var þetta réttu megin línunnar? „Það er allavegana ekkert sem bendir til annars að sinni, en við þurfum að skoða þetta betur. Eftir þessa heimsókn var ákveðið að boða lögreglustjórann líka á fund til að fá hennar sýn á þessi samskipti. Hún hefur verið bókuð á fund á morgun.“

Andrés Ingi segir að það hafi verið eðlilegt hjá ráðherra í ljósi stöðu sinnar að tjá sig ekki um málið við fjölmiðla. „En með sömu rökum hefði sennilega verið heppilegra að sleppa því að taka þessi símtöl og færa þessa upplýsingaleit í formlegan búning á milli embættismanna,“ segir hann.

Áslaug Arna segir að spurningar fjölmiðla á aðfangadag hafi snúist um upplýsingagjöf lögreglu og þess vegna hafi hún hringt í lögreglustjórann.

„Nokkrir spurðu um þessa færslu sem var búið að fjalla um að væri óvenjuleg og ítarleg. Ég  vildi því vita um færsluna og það verklag sem væri í kringum það hjá lögreglunni,“ segir Áslaug Arna.

En voru fjölmiðlar ekki aðallega að spyrja hvaða ráðherra þetta hefði verið? „Jú það var fyrst um morguninn og svo var hitt i kjölfarið.“ Vissir þú á þessum tíma þegar þú hringdir í lögreglustjórann hvaða ráðherra hefði verið í Ásmundarsal á Þorláksmessu? „Já.“

Áslaug Arna segir að vel hefði mátt standa á annan hátt að þessum samskiptum við lögreglustjórann. „Það má vel taka það til skoðunar,“ segir ráðherra.