Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bjó í farsóttarhúsinu fyrstu þrjá mánuði faraldursins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Eitt ár er í dag síðan farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík var opnað. Þar hafa dvalið um 1.100 gestir en í dag eru þeir aðeins fimm. Fréttastofa ræddi við Gylfa Þór Þorsteinsson, forstöðumann farsóttarhúsanna í tilefni af tímamótunum. Húsið var tilbúið til notkunar 1. mars 2020 og fyrsti gesturinn kom til dvalar þann 7. mars.

Það eru margar stéttir sem mikið hefur mætt á í faraldrinum. Þar á meðal er starfsfólk farsóttarhúsa. Sex slík voru opnuð í faraldrinum, þar á meðal á Akureyri og Egilsstöðum. Í dag er farsóttarhúsið í Reykjavík það eina sem er opið. 

Rauði krossinn hefur umsjón með húsunum og hafði Gylfi Þór áður verið sjálfboðaliði í viðbragðshópi Rauða krossins sem mætir til dæmis á vettvang slysa og veitir sálrænan stuðning. Fyrstu þrjá mánuði faraldursins bjó hann svo að segja í farsóttarhúsinu. „Ég fór ekkert heim, ég var þar bara. Bæði var það af ákveðnum sóttvarnaástæðum, ég var það mikið innan um veika að ég ákvað að það væri bara hollast að vera bara þar. Þannig að þar var ég fyrstu þrjá mánuðina. Nú síðan, þrátt fyrir að vera orðinn þó þetta miðaldra, þá þroskast maður heilmikið í svona starfi,“ segir Gylfi Þór um þá breytingu sem faraldurinn hafði í för með sér fyrir hann. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV

Starfsfólk farsóttahússins hefur tekið á móti fólki sem hefur misst maka sinn vegna COVID og einnig fólki sem hefur komið til landsins vegna þess að það hefur misst ástvini í slysi. „Fólk er að koma í alls konar ástandi til okkar og þetta er fólk sem að við þurfum að sinna, bæði að sinna líkamlegum einkennum þeirra og andlegum,“ segir Gylfi.

Starfsfólk farsóttahúsanna hafi tekist á við ýmislegt. „Það er einhvern veginn þannig að ég er alveg sannfærður um það að það er alveg sama hvaða verkefni þessi hópur fengi, við gætum leyst það. Því að það er ýmislegt sem við höfum staðið frammi fyrir og þurft að leysa í hvelli og það hefur alltaf tekist.“

Farsóttahúsið verður opið áfram næstu mánuði. Gylfi Þór bendir á að bólusetning gangi mis hratt í löndum heimsins og að sums staðar sé faraldurinn enn að breiðast nokkuð hratt út.