Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Biden hlynntur verkalýðsfélögum

01.03.2021 - 03:33
epa08952816 President Joe Biden speaks during his inauguration as US President in Washington, DC, USA, 20 January 2021. Biden won the 03 November 2020 election to become the 46th President of the United States of America.  EPA-EFE/Patrick Semansky / POOL
 Mynd: EPA
Joe Biden forseti Bandaríkjanna hvatti verkafólk til að mynda verkalýðsfélög og láta ekki vinnuveitendur kúga sig til að sniðganga slík félög. Hann segir að efnahagskerfi Bandaríkjanna hafi verið byggt upp af millistéttarfólki, en ekki á Wall Street.

Þetta kemur fram í myndskeiði frá Hvíta húsinu. Tilefnið er kosning á meðal verkafólks í Alabama og víðar í Bandaríkjunum sem fram fer á næstu vikum um stofnun verkalýðsfélaga.

„Verkalýðsfélög færa verkafólki völd, jafna leikinn og gefa fólki sterkari rödd. Heilsu sinnar vegna,  öryggis, tryggja launahækkanir, vörn gegn kynþáttafordómum og kynferðislegri áreitni. Verkalýðsfélög bæta kjör verkafólks, bæði gagnvart þeim sem eru innan og utan þeirra, sér í lagi þeldökkra,“ segir Biden. 

Hann segir að hann hafi haft það sem kosningaloforð að efla verkalýðsfélög í Bandaríkjunum og hann ætli sér að standa við það.

„Ég ætla að vera mjög skýr. Það er ekki mitt að ákveða hvort að einhver skráir sig í verkalýðsfélag eða ekki. En ég vil vera enn skýrari, það er ekki atvinnurekanda að ákveða það heldur. Valið er í höndum verkafólksins sjálfs, punktur.“ segir Biden.

Hann segir að atkvæðagreiðsla meðal verkamanna í Alabama á næstu dögum sé mjög mikilvæg. Tilefnið er óánægja meðal starfsmanna Amazon fyrirtækisins með stöðu sína gagnvart atvinnurekandanum. Starfsmenn fyrirtækisins í Alabama hafa boðað fyrirætlanir um að mynda verkalýðsfélag, en fyrirtækið segir að minnihluti starfsmanna þeirra í Alabama séu á bak við þær fyrirætlanir. Þátttaka verkafólks í verkalýðsfélagi er ekki eins almenn eins og til að mynda hér á landi.  

Ræðu Joe Biden má sjá hér að neðan: