Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir stöðu CCP sterka þrátt fyrir lækkun á söluverði

28.02.2021 - 19:20
Mynd: Vilhjámur Þór Guðmundsson / RÚV
Forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP segir fyrirtækið aldrei hafa verið í sterkari stöðu þrátt fyrir að söluverð þess hafi lækkað um nær helming frá því sem það gat mest orðið. Fyrirtækið hefur, með aðstoð íslenskra stjórnvalda, fengið leyfi til að gefa út farsímaleik í Kína.

Á meðan ýmis fyrirtæki berjast í bökkum í faraldrinum hafa mörg tölvuleikjafyrirtæki sótt í sig veðrið samhliða samkomutakmörkunum og meiri inniveru. Þar á meðal er CCP sem gefur út tölvuleikinn Eve Online.

„Það var metár í nýjum notendum að koma inn í Eve á síðasta ári. Það voru 1,3 milljón manns sem hófu sitt ferðalag í Eve Online. Við sjáum alveg mjög greinilega hvenær heimurinn byrjar að loka. Það sést mjög skýrt á okkar gögnum,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.

Fyrirtækið réð tæplega sextíu starfsmenn hér á landi í fyrra og stefnir á að ráða allt að þrjátíu á þessu ári.

„Það hefur verið brett upp á ermarnar hérna í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi sem hjálpar öllum fyrirtækjum í þessum iðnaði, smáum sem litlum,“ segir Hilmar.

Suðurkóreska fyrirtækið Pearl Abyss keypti CCP árið 2018. Eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá vikunni tókst ekki að uppfylla árangurstengd tekjuviðmið í kaupsamningnum og lækkaði kaupverðið því úr rúmlega 54 milljörðum íslenskra króna í tæplega 29 milljarða króna. Eigendur urðu þannig af um 25 milljörðum.

„Það er bara hreinlega fúllt. Það er í og með skýrt af því að leyfi til að gefa út á Kínamarkaði komu seinna en við áttum von á sem er vegna stórra skipulagsbreytinga sem kínverska heimsveldið er búið að vera að sýsla með síðustu árin, þannig að það hafa engin leyfi verið gefin út,“ segir Hilmar.

Hann segir þessa lækkun á verðinu þó ekki hafa áhrif á reksturinn. „Rekstur fyrirtækisins er þessu að mörgu leyti ótengdur þó hann sé það sem er notað til þess að meta söluverðið en þetta er út af þessu máli sem er núna leyst. Það leysist bara tveimur árum á eftir áætlun en fyrirtækið hefur aldrei verið í sterkari stöðu fyrir vikið,“ segir Hilmar.

CCP hefur nú fengið leyfi fyrir útgáfu tölvuleiksins og farsímaútgáfu hans á kínverskum markaði. Það var gert með aðstoð íslenskra stjórnvalda en sjaldgæft er að kínversk stjórnvöld veiti erlendum fyrirtækjum slík útgáfuleyfi.

„Ef það var einhvern tímann gott að vera Íslendingur þá er það akkúrat núna þegar Kína og Bandaríkin eru í einhvers konar viðskiptastríði. Þá geta minni lönd hlaupið undir og gert þetta,“ segir Hilmar.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV