Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nokkrir flugfarþegar gætu átt brottvísun yfir höfði sér

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum, segir mögulegt sé að vísa þurfi um sex flugfarþegum frá landinu á grunni sóttvarnarlaga og ferðatakmarkana þriðja ríkis borgara. Jafnframt sé eitthvað um að farþegar framvísi ekki réttri gerð kórónuveiruprófs.

Sigurgeir segir í samtali við fréttastofu að nokkur mál komufarþega séu til skoðunar eftir helgina. Algengt sé að fólk framvísi hraðprófum, eða antigen prófum, í stað hinna mun nákvæmari PCR-prófa. Víða annars staðar séu hraðpróf tekin gild, en þannig sé ekki í pottinn búið hér. 

Að sögn Sigurgeirs er verið að skoða nokkur mál með fyrirhugaðar sektargreiðslur í huga. Hann segir að sektarupphæðir fari eftir umfangi brots, 100 þúsund krónur séu sennilega hæsta fjárhæðin.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir í samtali við fréttastofu að um 25 hafi tekið sér far með rútum fyrirtækisins í gær.

Fjórar flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli í gær og langflest úr flugi frá Amsterdam tóku rútu frá vellinum, eða 20. Mjög fáir farþegar frá Varsjá og Tenerife nýttu sér þjónustuna, að sögn Björns.

Akstur flugrútunnar hófst að nýju 26. febrúar síðastliðinn. „Þetta var tilkynnt með stuttum fyrirvara og því líklegt að fólk hafi gert aðrar ráðstafanir,“ segir Björn og að aksturinn hafi farið frekar rólega af stað. 

Björn segist sjálfur hafa talað við komufarþega í gær sem fögnuðu því að þjónusta flugrútunnar væri aftur komin í gang. Hann segist ekki hafa orðið var við að aðstandendur væru að sækja farþega. 

Fjórar flugvélar eru væntanlegar til Keflavíkur í dag. Sú fyrsta kemur frá Frankfurt klukkan 14, Kaupmannahafnarvél mun svo lenda klukkan 15:25 og gert ráð fyrir vél frá Lundúnum fimm mínútum síðar. Síðasta flugvél dagsins kemur loks frá Nuuk á Grænlandi og er vænst klukkan 16:10.