Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Messugestir kvaddir með Metallicu

Mynd: Rás 2 / Rás 2

Messugestir kvaddir með Metallicu

28.02.2021 - 14:47

Höfundar

„Mörg lög með hljómsveitum eins Metallica og Queen eru ótrúlega vel samin,“ segir Sólveig Sigríður Einarsdóttir organisti í Digraneskirkju. „Lagið Nothing else matters fjallar um kærleikann sem er grunnundirstaða kristinnar trúar og á alltaf við.“

Það vakti athygli hlustenda Rásar eitt í morgun að eftirspilið í útvarpsmessunni var einmitt Nothing else matters eftir James Hetfield og Lars Ulrich úr bandarísku rokksveitinni Metallicu. Hljómsveitin fagnar fertugsafmæli á þessu ári en lagið er af fimmtu hljóðversplötu hennar sem kom út 1992. 

Útvarpsmessan var send út frá Digraneskirkju þar sem séra Gunnar Sigurjónsson þjónaði og predikaði. Sólveig, sem er klassískt menntaður organisti, segir þau stundum spila tónlist af þessu tagi við kirkjuathafnir. 

„Það er gaman að brjóta aðeins upp og spila eitthvað fleira en það sem maður er alltaf að spila.“ Forspilið við messuna í dag var lagið In dreams eftir Howard Shore úr kvikmyndinni Föruneyti hringsins úr Hringadróttinsþríleiknum.

Sólveig segir Gunnar hafa snemma tekið til við að stinga upp á að spila eitthvað öðruvísi við athafnir. „Ef það er eitthvað sem passar er hann alltaf jákvæður.“ segir Sólveig sem finnst snjallt að nota þessa aðferð til að kynna orgeltónlist fyrir nýjum hlustendum.

„Orgeltónlist er ekki það sem er mest inn hjá unga fólkinu, við komum því á bragðið með því að gera eins og Lúther gerði forðum þegar hann samdi nýja sálmatexta við dægurlög þess tíma. Þá var svo auðvelt að fá fólkið til að syngja með.“

Að sögn Sólveigar á það við um orgeltónlist og unga fólkið því að með því að spila eitthvað smart sem því finnst skemmtilegt verði auðveldara að koma þeim á bragðið. „Þú byrjar ekki leikhúsuppeldi á því taka unga manneskju með þér á leikrit efir Tsjekov.“

Hún segir mörg rokklög passa ótrúlega vel fyrir orgel. „Þegar ég byrjaði að vinna með Gunnari opnaði hann augu mín fyrir alls konar músík sem klæðir orgelið alveg óskaplega vel. Ég er alltaf að uppgötva ný og ný lög.“

Sólveig er þeirrar skoðunar að tónlist skipti miklu máli. „Svo vill maður hlusta á mismunandi tónlist eftir því hvernig manni líður, maður á bara að láta eftir sér að spila það sem mann langar.“ 

Tengdar fréttir

Trúarbrögð

Messað að nýju í kirkjum eftir langa bið

Tónlist

Breskir tónlistarmenn birta opið bréf til stjórnvalda

Tónlist

Ellý Ármanns - Metallica og Queen